Héraðssaksóknari hefur ákært hálfsjötugan ítalskan karlmann fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa flutt inn til landsins 993,78 grömm af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Fíkniefnin flutti ákærði falin í niðursuðudósum í ferðatösku sem hann hafði meðferðis sem farþegi með flugi frá Brussel í Belgíu til Íslands í apríl síðastliðnum.

Maðurinn sætir nú gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði vegna málsins en það verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku.