Stjórnsýslustofnunin Matvælastofnun og eftirlitsþegi þess, líftæknifyrirtækið Ísteka, funduðu saman um mögulegar aðferðir til eftirlits árið 2020. Fulltrúar Ísteka fengu að gera athugasemdir um hvers konar eftirlit þeim „leist ekki vel á“.

Ísteka er líftæknifyrirtæki sem kaupir blóð úr fylfullum hryssum frá bændum til framleiðslu á frjósemislyfjum sem selt er til stórra lyfjafyrirtækja út um allan heim.

Matvælastofnun komst að þeirri niðurstöðu árið 2020 að blóðtaka úr hryssum til lyfjaframleiðslu væri ekki leyfisskyld starfsemi samkvæmt túlkun þeirra á lögum og reglugerðum. Á fundinum með Ísteka kom fram að lagastoð og reglugerð um starfsemina væri „risastórt verkefni sem skilar etv ekki miklu“.

Fulltrúar MAST og Ísteka funduðu í einn og hálfan tíma um þessa túlkun 25. maí árið 2020, einu og hálfu ári áður en myndband svissnesku dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation birtist sem sýndi dýraníð við blóðtöku á íslenskum sveitabæjum. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka og Hörður Kristjánsson, meirihlutaeigandi Ísteka.

Í fundargerð kemur fram að allir aðilar hafi verið sammála um túlkun MAST, um að ekki væri um leyfisskylda starfsemi að ræða. Þetta væri í samræmi við almenna tilhneigingu að fækka leyfum og að óvíst væri að málið yrði „nokkurn tímann tekið upp af löggjafanum.“

Þá vekur athygli að MAST ræddi við sjálfan eftirlitsþegann, Ísteka, um hvernig eftirliti yrði háttað. Í fundargerðinni kemur meðal annars fram:

Eftirlit með starfseminni sem er tilkynningarskyld er því í formi eftirlits með velferð hrossanna. Möguleikar sem voru ræddir um aðferðir til þessa:

  1. MAST riti starfsreglur sem tryggi velferð dýranna, sem þá verði opinbert gagn.
  2. MAST setji skoðunarákvæði inn í skoðunarhandbók. (Ísteka leist ekki vel á það, þar sem gagnsæi væri ekki tryggt.
  3. Ísteka útbýr skriflega yfirlýsingu um hvað við gerum. Það væri ekki vottað af MAST þar sem MAST er ekki vottunarstofa. Þessi leið er frekar veik gagnvart utanaðkomandi gagnrýni um að fyrirtækið setji sjálfu sér reglurnar.
  4. Lagastoð og reglugerðir settar um starfsemina. Gæti verið úrlausn til lengri framtíðar en er risastórt verkefni sem skilar etv ekki miklu og etv óþarft ef leið i) virkar.

„Skilningur Ísteka og MAST fellur því vel saman,“ stendur neðst í fundargerðinni sem má sjá hér fyrir neðan.

Sigríður Björnsdóttir situr í starfshópi ráðherra um blóðmerahald sem skilur af sér vinnu fyrir 1. júní næstkomandi.