Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur rift samningum við hluta af samstarfsbændum sínum sem stunda blóðmerahald „vegna ólíðandi meðferðar hrossa“. Ætlar fyrirtækið að hafa eftirlitsmenn við allar blóðgjafir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ísteka til fjölmiðla.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, segir að myndskeið svissnesku dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation, AWF, sem sýndi dýraníð á tveimur blóðtökubæjum á Íslandi, væri ástæðan fyrir riftingu samninganna.

„Þessi meðferð er augljóslega brot á velferðarsamningum fyrirtækisins og viðkomandi bænda. Samningum við þá hefur því verið rift,“ segir Arnþór sem undirritar tilkynninguna. Hann segir að almennt vinni bændur samkvæmt sérstökum viðskipta- og velferðasamningum og að rannsóknir sýni að blóðmerum verði „ekki meint af blóðgjöfunum“.

Arnþór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.
Mynd: Ísteka

AWF segir dýraníðið ekki frávik

Ísteka ber ábyrgð á sérstöku eftirliti með blóðtökunni sjálfri og er greinilegt að eftirlit hefur verið ábótavant ef marka má heimildarmynd AWF.

Ísteka segir að regluverk um blóðgjafir sé strangt og eftirlit mjög mikið en að ljóst sé að „óviðeigandi frávik“ geti komið upp. Slíkt sé ekki liðið af hálfu Ísteka og hafi því samningum við umrædda bændur verið rift.

Fréttablaðið ræddi við Sabrinu Gurtner hjá AWF, sem rannsakaði blóðmerahald á Íslandi frá 2019 til 2021 og hefur skrifað 120 blaðsíðna skýrslu um málið. Hún segir að hún og samstarfsmaður hennar hjá AWF hafi ekki birt myndbönd af „frávikunum“ í heimildarmynd sinni. Bæirnir voru valdir af handahófi. „Þetta eru ekki frávik. Þetta er lýsandi fyrir iðnaðinn í heild sinni,“ sagði Sabrina.

Blóðmeri í blóðtökubás á íslenskum bæ.
Mynd: Animal Welfare Foundation / Tierschutzbund Zürich

Myndavélaeftirlit með öllum blóðgjöfum

Ísteka segist hafa tekið ákvörðun um að ráðast í umfangsmiklar umbætur á eftirliti fyrirtækisins með blóðgjöfum. Unnið verður í nánu samstarfi við sérfræðinga á sviði búfjárhalds og dýravelferðar. Meginatriði þeirrar umbótaáætlunar verður:

  • Aukin fræðsla og þjálfun fyrir samstarfsbændur.
  • Fjölgun velferðareftirlitsmanna sem framvegis verða viðstaddir allar blóðgjafir.
  • Myndavélaeftirlit með öllum blóðgjöfum.

„Með þessu vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að ólíðandi frávik varðandi dýravelferð í blóðgjöf hryssna á Íslandi endurtaki sig ekki.“

Vilja banna blóðmerahald

Aðeins fjögur lönd heiminum heimila blóðmerahald í þeim tilgangi að búa til hormón sem sprautað er í gyltur til að auka frjósemi þeirra, en löndin eru Argentína, Kína, Ísland og Úrúgvæ.

Raunar er blóðmerahald enn stundað á einum bæ í sambandslandinu Thüringen í Þýskalandi, en ágreiningur hefur verið á milli sambandslandsins og sambandsríkisins um hver fer með lögsögu málsins og fyrir vikið er enn stunduð blóðtaka úr merum á bænum.

Fregnir af blóðmerahaldi á Íslandi hafa vakið óhug og er nú undirskriftasöfnun hafin til að banna blóðmerahald á Íslandi. Ísteka ætla þó ekki að hætta sinni starfsemi en velta fyrirtækisins árið 2020 var 1,7 milljarðar.

Sömuleiðis hefur Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagt að það verði eitt af forgangsmálum að leggja til bann á blóðtökum úr fylfullum hryssum á þessu þingi.

Mynd: Animal Welfare Foundation / Tierschutzbund Zürich

Telja margt ábótavant með eftirlit

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær telja AWF eftirlitsmann á vegum Ísteka ekki hæfan til að sinna eftirliti með blóðtöku. Í boðsferð Ísteka á íslenskan blóðtökubæ hittu dýraverndarsinnarnir eftirlitsmann, sem kynnti sig sem meðstofnanda.

Í skoðuninni bentu fulltrúar AWF eftirlitsmanninum ítrekað á atriði sem gætu mögulega skapað hættu fyrir merarnar. Viðbrögð hans ollu þeim vonbrigðum.

„Eftirlitsmaður Ísteka virðist ekki hæfur til að sinna innri rannsókn fyrir hönd fyrirtækisins. Hann situr mestallan tímann á einum stað og glósar sjaldan í bókina sína. Þegar við bendum honum á skarpa brún við blóðmerabásinn sem gæti skorið í kjúkurnar á merunum segir hann brúnina ekki skapa neina hættu,“ segir í skýrslu AWF.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er eftirlitsmaðurinn dr. Eggert Gunnarsson dýralæknir en hann er einn af upphafsmönnum blóðmerahalds á Íslandi og hefur stundað rannsóknir og tekið þátt í að byggja upp iðnaðinn frá árinu 1979.

Eggert Gunnarsson dýralæknir, einn upphafsmaður blóðmerahalds á Íslandi sem hefur sinnt dýravelferðaeftirliti fyrir Ísteka.
Fréttablaðið/Valli

Yfirlýsing Ísteka í heild sinni:

Líftæknifyrirtækið Ísteka riftir samningum við bændur vegna ólíðandi meðferðar hrossa.

Í myndskeiði sem nýlega birtist á netinu sjást dæmi um ólíðandi meðferð hrossa hjá samstarfsbændum líftæknifyrirtækisins Ísteka. Þessi meðferð er augljóslega brot á velferðarsamningum fyrirtækisins og viðkomandi bænda. Samningum við þá hefur því verið rift.

Á árinu 2021 hefur líftæknifyrirtækið Ísteka átt í samstarfi við 119 bændur um blóðgjafir hryssa til lyfjaframleiðslu. Gerðir eru bæði viðskiptasamningar og sérstakir velferðarsamningar við þá alla. Blóðgjöf til lyfjaframleiðslu er eina búgreinin á Íslandi þar sem slíkir samningar eru regla. Reynslan sýnir að bændur vinna almennt samkvæmt þeim.

Allar blóðgjafir eru framkvæmdar af dýralæknum og starfsemin er undir eftirliti Matvælastofnunar og fyrirtækisins sjálfs þar sem starfar sérstakur dýravelferðarfulltrúi. Rannsóknir sýna að hryssunum verður ekki meint af blóðgjöfunum.

En þrátt fyrir að regluverk um blóðgjafir sé strangt og eftirlit mjög mikið er ljóst að óviðeigandi frávik geta komið upp. Slíkt er ekki liðið af hálfu Ísteka og samningum við bændur er rift ef ekki er staðið við þá.

Að auki hefur Ísteka ákveðið að ráðast í umfangsmiklar umbætur á eftirliti fyrirtækisins með blóðgjöfum sem unnin er í nánu samstarfi við sérfræðinga á sviði búfjárhalds og dýravelferðar. Meginatriði þeirrar umbótaáætlunar felast meðal annars í eftirfarandi:

  • Aukinni fræðslu og þjálfun fyrir samstarfsbændur.
  • Fjölgun velferðareftirlitsmanna sem framvegis verða viðstaddir allar blóðgjafir.
  • Myndavélaeftirliti með öllum blóðgjöfum.

Með þessu vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að ólíðandi frávik varðandi dýravelferð í blóðgjöf hryssna á Íslandi endurtaki sig ekki. Nánari upplýsingar um starfsemi líftæknifyrirtækisins Ísteka er að finna á vefsíðunni www.isteka.is.