Lyfjatæknifyrirtækið rekur þrjár starfsstöðvar fyrir blóðtöku og eru 283 blóðmerar í eigu fyrirtækisins. Fyrirtækið skoðar ýmsar aðferðir til að hámarka afköst meðal annars með því að rækta merar sem eru með hormónið eCG sem lengst í blóðinu.

„Við ræktun á hryssum til blóðgjafa er helst litið til þess hve lengi hormónið finnst í mæðrum þeirra og þá valið fyrir þeim sem það finnst lengur í fremur en skemur,“ segir Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Einnig er litið til hegðunarþátta og þá þekkist vel að bændur hafi sín eigin ræktunarmarkmið sem líka er litið til, t.a.m. sérstaka liti,“ bætir hann við.

Ísteka er eina fyrirtækið á Íslandi sem kaupir blóð af bændum sem halda blóðmerar. Starfsemin er ekki leyfisskyld samkvæmt túlkun Matvælastofnunar á lögum frá 2020.

Bændur ekki í góðri stöðu gagnvart Ísteka

Vel lengi hefur blóðmerahald verið hliðarbúgrein samhliða hefðbundnum búrekstri en á síðustu fimm árum hefur starfsemin aukist til muna og hafa ýmsir bændur sett blóðframleiðslu í forgrunn rekstrar síns.

Ísteka tilkynnti í desember að fyrirtækið hefði rift samningum við hluta af samstarfsbændum sínum sem stunda blóðmerahald „vegna ólíðandi meðferðar hrossa“. Bændablaðið greindi frá því í apríl að frost væri í viðræðum bænda við Ísteka. Samningar væru enn lausir og viðræður þeirra á milli engar.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, segir ekki ljóst hversu margir bændur verði með í framtíðinni eftir að samningum var rift. „En það skýrist þegar nær dregur hausti,“ sagði Arnþór.

Yfirgnæfandi meirihluti blóðbænda sögðu samningum lausum í febrúar en síðan þá hefur aðeins einn fundur verið haldinn og annar ekki boðaður. Hagsmunafélag hrossabænda hefur sent ítrekunarpóst til að fá fleiri fundi með það fyrir augum að landa samningi en án svara.

Bændur hafa kallað eftir frekara samtali við fulltrúa fyrirtækisins og krafist verðlagningar fyrir afurð sína. Fulltrúar Í-ess bænda, hagsmunafélags blóðbænda á Suðurlandi, sögðu við Bændablaðið að Ísteka fengi ekki blóð frá bændum fyrr nema með nýjum samningum.

Ísteka hagnaðist um 592 milljónir árið 2020 og 507 milljónir 2019. Fyrirtækið, sem velti 1,7 milljörðum króna árið 2020, hefur lengi verið í góðum rekstri og greiddi sér 300 milljónir króna í arð sama ár.