Líftæknifyrirtækið Ísteka segist fordæma vinnubrögð og aðferðir sem sjást í myndbandi sem alþjóðlegu dýraverndarsamtök AWF/TSP (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) birtu af blóðtöku fylfullra hryssa á íslenskum sveitabæ fyrir helgi.

MAST er með myndbandið til rannsóknar og segist líta málið alvarlegum augum. Verklag sem þar kemur fram virðist stríða gegn starfsskilyrðum starfseminnar sem eiga að tryggja velferð hryssnanna.

Athygli vekur að í myndbandinu sést Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, lét elta dýraverndarsinnanna sem voru á Íslandi að taka upp myndefni af blóðmerahaldi. Hann ræddi við fulltrúa samtakanna til að reyna að koma í veg fyrir birtingu myndefnisins.

„Framkvæmdastjóri Ísteka viðurkennir að hann hafi beðið dýralækni um að elta okkur. Við viljum ekki að myndir séu teknar af starfsemi okkar segir hann,“ kemur fram í myndbandinu en hér fyrir neðan má brot úr því sem sýnir framkvæmdastjóri Ísteka ræða við dýraverndarsinnanna.

„Í myndbandi sem svissnesk samtök settu inn á Youtube á föstudaginn sem mun verða dreift víðar eftir helgina, má sjá upptökur frá földum myndavélum af blóðgjöfum hryssa á Íslandi. Vinnubrögð og aðferðir sem sums staðar sjást þar eru óviðeigandi og ólíðandi, t.d. notkun járnstangar, harkaleg notkun timburbattinga og glefs hunda,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Stjórnendum og starfsfólki Ísteka mislíkar verulega þessi vinnubrögð við framleiðslu á vöru fyrir okkur. Þau uppfylla ekki ströng skilyrði okkar til dýravelferðar. Við höfum nú þegar hafið innri rannsókn á birgjunum og atvikunum.“