Öræfajökull er annað stærsta virka eldfjall Evrópu og hefur gosið tvisvar á nútíma, fyrst 1362 þegar sveitin sunnan jökulsins, sem þá hét Litla Hérað, lagðist í eyði. Eftir það kallaðist héraðið Öræfi og eldfjallið eftir því, en 1727 gaus það öðru sinni en mun minna gosi.

Efst er Öræfajökull hulinn jökli og niður hlíðar hans rennur fjöldi tilkomumikilla skriðjökla sem setja sterkan svip á þetta hæsta fjall Íslands. Askjan á miðju eldfjallsins er engin smásmíði, eða sex kílómetrar á breidd, og ísinn allt að 550 metra þykkur. Við eldgos yrði því um gríðarlegt leysingavatn að ræða sem myndi bætast ofan á enn hættulegri gjóskuflóð líkt og í fyrri gosunum tveimur.

Rótarfjallshnjúkur liggur austur af gönguleiðinni á Hvanndalshnjúk. Vestari Hnappur er lengst til vinstri. Mynd/ÓMB

Á barmi öskju Öræfajökuls raða sér hæstu tindar landsins, Hvannadalshnúkur (2110 m), Sveinstindur (2044 m), Snæbreið (2036 m), Sveinsgnípa (1927 m), en líka Efri Dyrhamar (1917 m), Vestari Hnappur (1849 m), Eystri Hnappur (1758 m) og síðast og ekki síst Rótarfjallshnjúkur (1848 m). Hann vill oft gleymast í þessum fríða tindahópi en á alla athygli skilið, enda frábært útsýnisfjall sem sést víða að.

Best sést hnjúkurinn þó úr vestri af Sandfellsleið, algengustu gönguleiðinni á Hvannadalshnjúk, en hvít klakabrynjan minnir helst á ísskáp sem þarf að afþíða. Fremur auðvelt er að ganga upp á sjálfan tindinn með því að fylgja snjóhrygg af öskjubarminum í suður.

Útsýni af Rótarfjallshnjúki er frábært, eins og yfir Skeiðar­árjökul og Sandfellsleið. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Leiðin að uppgöngustaðnum getur hins vegar verið snúnari vegna jökulsprungna, sérstaklega við upptök Kotárjökuls sem oftast er krosssprunginn. Þess vegna er öruggast að fylgja Sandfellsleiðinni áleiðis á Hnjúkinn en sveigja til austurs þegar komið er upp á öskjubarminn í stað norðvesturs á Hnjúkinn. Rótarfjallshnjúkur er einnig tilvalinn fyrir fjallaskíði og brekkan niður Sandfellsleiðina er með þeim lengri og skemmtilegri á Íslandi.

Af tindi Rótarfjallshnjúks er frábært útsýni yfir að Hvannadalshnúki og Sveinstindi en einnig sést vel yfir Öræfasveitina og vestur yfir Skeiðarársand og Lómagnúp. Í forgrunni er þó Kotárjökull en sprunginn jökulísinn minnir óneitanlega á marensköku. Í austri sést síðan vel í Eystri Hnapp sem er eins og snævi þakinn píramídi á öskjubarminum. Reyndar er hægt að komast á Rótarfjallshnjúk að austanverðu af svokallaðri Hnappaleið sem oft er farin á Hnúkinn, en Sandfellsleiðin er þó hentugri og útsýnið enn tilkomumeira.