Ísraelsher hefur gert loftárásir á nokkur skotmörk á Gaza ströndinni sem sögð eru vera á vegum Hamas samtakanna en árásirnar eru svar við flugskeyti sem skotið var á hús norðan við Tel Aviv en ísraelsk yfirvöld segja að samtökin beri ábyrgð, að því er fram kemur á vef BBC.

Í tilkynningu frá hernum segir meðal annars að um sé að ræða hús á vegum leiðtoga samtakanna sem og herstjórnar samtakanna en samkvæmt yfirvöldum á Gaza særðust sjö í árásinni. Forsætisráðherrann, Benjamín Netanyahu, hafði áður sagt að ísraelsk yfirvöld myndu ekki sætta sig við flugskeytaárásina, þar sem sjö særðust einnig.

„Ísrael mun ekki sitja undir þessu. Ég mun ekki sitja undir þessu. Ísrael mun bregðast við af fullri hörku við þessari árásarhneigð,“ sagði forsætisráðherrann meðal annars en palestínskir fréttamiðlar staðfestu eins og áður segir að sjö hafi meiðst í umræddri árás.