Njósna­for­rit að nafninu Pegasus var notað til að brjótast inn í 37 snjall­síma í eigu blaða­manna, að­gerða­sinna og for­stjóra fyrir­tækja, sam­kvæmt rann­sókn Was­hington Post og fleiri fjöl­miðla.

For­ritið er búið til af ísraelska fyrir­tækinu NSO Group með því yfir­lýstu mark­miði að fylgjast með hryðju­verka­mönnum og glæpa­mönnum. Ein­hverjar ríkis­stjórnir hafa fengið af­not af for­ritinu.

Franska frétta­fé­lagið For­bidden Stories og mann­réttinda­sam­tökin Am­ne­sty International fengu að­gang að lista með rúm­lega fimm­tíu þúsund síma­númer. Blaða­menn gátu rakið eitt þúsund síma­númeranna til ein­stak­linga í yfir fimm­tíu löndum.

Á listanum voru nokkrir úr Arabísku konungs­fjöl­skyldunni, í það minnsta 65 for­stjórar fyrir­tækja, 85 að­gerðarinnar, 189 blaða­menn og 600 stjórn­mála­menn og opin­berir aðilar, þeirra á meðal nokkrir þjóðar­leið­togar.

Símanúmerin aðallega frá tíu löndum

67 snjall­símar voru skoðaðir í tengslum við þetta mál og rann­sókn leiddi í ljós að til­raunir hafi verið gerðar til að setja upp njósna­for­rit í að minnsta kosti 37 þeirra. Af þeim til­raunum hafi 14 borið árangur. 34 af þessum símum voru frá sím­afyrir­tækinu App­le.

Mörg síma­númeranna var hægt að rekja til tíu landa: Aserbaídsjan, Bar­ein, Ung­verja­land, Ind­land, Kasakstan, Mexíkó, Marokkó, Rúanda, Sádi-Arabíu og Sam­einuðu arabísku fursta­dæmin.

Tvö af síma­númerunum mátti rekja til tveggja kvenna sem voru nánastar Sádi-Arabíska blaða­mannsins Jamal Khas­hoggi, sem var myrtur árið 2018. Þær eru eigin­kona hans, Hanan Elatr, og unnusta hans, Hatice Cengiz.

Shalev Hulio, for­stjóri og einn af stofn­endum NSO Group, heldur því fram að listinn tengist fyrir­tækinu ekkert en heitir því að rann­saka hvort for­ritið hafi verið mis­notað.