Hirðar frá líbanska þorpinu Wazzani hafa sakað ísraelska herinn um að taka kýr sem voru á beit við landamæri ríkjanna tveggja.

Ísrael og Líbanon eiga formlega í stríði og eru ekki sammála um hvar landamæri ríkjanna liggja. Svæðið þar sem kýrnar frá Wazzani eru venjulega á beit er aðeins um 200 metra frá Ísrael.

Segja hirðarnir að ísraelskir hermenn hafi farið yfir landamærin í leyfisleysi og tekið þar sjö kýr.

„Þessar kýr hafa verið þarna í yfir tuttugu ár og þetta er í fyrsta skipti sem einhver tekur þær,“ sagði einn af þorpsbúum Wazzani, sem missti þrjár kýr.

Talsmaður ísraelska hersins sagði hins vegar að kýrnar hefðu komist í gegnum hlið og yfir á yfirráðasvæði Ísraels á meðan heræfingar stóðu yfir. Hliðinu hafi verið lokað eftir æfingarnar. Hann sagði jafnframt að kúnum sjö yrði skilað aftur til eigenda sinna