Miklar umræður hafa skapast á Facebook hópnum rafbílar á Íslandi í kjölfar innleggs sem Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, birti í kjölfar tilkynningar fyrirtækisins Ísorka um slit á samstarfi við Rafbílasamband íslands.

Upphaflega snérust umræður um aðra færslu sem sett var inn á hópinn sem Tómas setti "like" við en Sigurður vill meina að með því að setja like við færsluna hafi Tómas tekið afstöðu gegn Ísorku og því muni hann binda enda á samstarf Ísorku við sambandið og þann afslátt sem meðlimir þess nutu. Báðir aðilar eru þó sammála um að málið sé flóknara heldur en svo að málið snúist um eitt like heldur eigi það sér nokkra sögu.

Í tilkynningu Sigurðar kemur fram að „Í ljósi þess að formaður Rafbílasambands Íslands, Tómas Kristjánsson setur Like á innlegg Hilmars, eiganda Hleðsluvaktarinnar á innleggi hans inn á Rafbílar á Íslandi óska ég eftir því að slíta samstarfi við sambandið.“

Sigurður, framkvæmdastjóri Ísorku tekur þá einnig fram að hann muni „endurskoða þessa ákvörðun ef ég sé breytingu á takti og útskiptum á formanni félagsins.“

Tómas Kristjánsson sem upphaflega birti færsluna segir að hann hafi ekki getað orða eftir að Sigurður sendi honum tilkynningu þess efnis að Ísorka og Rafbílasambandið myndu slíta samstarfi sínu. Samstarf félaganna hafi þó aðallega snúist um veitt afsláttarkjör meðlima rafbílasambands Íslands „ Samstarfið var ekki meira en það að þetta er einn af þeim aðilum sem veita meðlimum sambandsins afsláttar kjör. Það er ekkert frekara samstarf en það," segir Tómas.

Rafbílasambandið eru áhugamannasamtök að sögn Tómasar og er formennska hans ólaunað starf sem hann vinnur til þess að bæta veg rafbíla á Íslandi.

"Fókusinn hjá okkur hefur alltaf verið að fræða fólk og ég hugsa að við höfum náð að stýra mörgum inn í það að kaupa rafbíla. Með því að mæta í viðtöl til fjölmiðla og skrifa greinar og mæta í fyrirtæki til þess að byggja samtalið á upplýstri umræðu," segir hann en hann telur að deilurnar hafi lítið að gera með það að bæta hag rafbílaeigenda á Íslandi.

MID mælar þrætuepli

Átökin innan hópsins eru að miklu mæli um það hvort svokallaðir MID-mælar séu nauðsynlegir til þess að hleðslustöðvar séu löglegar eða ekki. MID-mælar eru löggiltir raforkumælar sem notaðir eru til þess að rukka fyrir það rafmagn sem tekið er út.

Í færslu Tómasar segist hann ekki skilja hvers vegna Ísorka fari svo mikið fram á það að MID mælar séu notaðir í öllum hleðslustöðvum þegar til séu aðrir löggildir mælar og einnig vegna þess að MID mælir eigi aðallega við dreifiveitur en ekki þjónustuveitendur.

". Hvernig þjónar það haf rafbílaeigenda að berjast fyrir því að allar aðrar hleðslustöðvar á Íslandi en þær sem Ísorka selur séu ólöglegar, þegar þetta er svo augljóst í 1. gr. reglugerðar 1061/2008 (https://island.is/reglugerdir/nr/1061-2008):

“Reglugerð þessi gildir um raforkumæla, sem eru sölumælar í dreifiveitu fyrir raunorku til almennra notenda í lágspenntu dreifikerfi og um frádráttarmæla til sömu nota.”

Ísorka er þjónustuveitandi, ekki dreifiveita, skv. skilgreiningu í Reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019 (https://island.is/reglugerdir/nr/1150-2019).

Ég skil því ekki þennan áróður um MID-mæla. Tek fram að í reglugerðum er MID-mælir ekki eina úrræðið og langt frá því að vera fullkominn," segir í færslu Tómasar.

Beiðni um útskipti dregin til baka

Sigurður birti þó einnig athugasemd við færsluna þar sem hann tekur til baka beiðni sína um útskipti á formanninum eftir að mikil gagnrýni hafði verið sett fram um afskipti Framkvæmdastjóra Ísorku af stjórnarskipan frjálsra félagasamtaka.

Í svari til fréttastofu sagði Sigurður að ákvörðun um slit á samstarfi muni þó standa en mætti ávallt endurskoða.

„Samskipti okkar Tómasar hafa út af fyrir sig ekkert með þetta mál að gera þótt mér þyki leitt að forsvarsmaður hagsmunasamtaka rafbílaeigenda á Íslandi skuli kjósa að véfengja opinberar stjórvaldsákvarðanir sem reglugerðin er,“ segir Sigurður og bætir við „Reglugerðin hefur eins og aðrar reglugerðir óháð málaflokkum lagagildi.“

Sigurður tekur þó fram að hann beri hag rafbílaeigenda fyrir brjósti:

„Við teljum mikilvægt að rafbílaeigendur séu upplýstir um þær kröfur sem settar hafa verið í reglugerð 1150/2019. Við höfum farið eftir reglugerðinni frá því hún tók gildi í desember 2019.

Við höfðum undir höndum bréf Orkustofnunar síðan í maí. Þar koma kröfurnar skýrt fram. Við fundum fyrir því að aðilar sem bjóða lausnir höfðu annan skilning á reglugerðinni. Sökum þess var ákveðið að birta afstöðu Orkustofnunar opinberlega á heimasíðu Ísorku.

Með þessu erum við að koma á framfæri þeim kröfum sem settar eru í reglugerð um hleðslustöðvar. Þetta er hreint neytendamál," segir Sigurður tekur fram að lokum "

„Ísorka hefur hvergi sagt opinberlega að við séum þau einu sem eru með MID vottaða mæla í stöðvum. Það eru aðilar á markaðnum sem deila okkar sýn og erum með vottaðar lausnir."