Lögreglan í Dublin á Írlandi hefur lýst eftir íslenskum manni, Jóni Þresti Jónssyni, en ekkert hefur sést til hans síðan á laugardaginn. Fjallað er um málið á vef írska miðilsins The Journal og the Independent. Þar er greint frá því að Jón hafi verið á Írlandi í fríi. 

Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins staðfestir í samtali við Fréttablaðið að mál Jóns sé komið á borð borgaraþjónustunnar og segir það í eðlilegum farveg. Hann hafði ekki frekari upplýsingar um málið og sagði það vera hjá lögreglunni í Írlandi.

Jón Þröstur er 41 árs gamall. Hann er um 190 sentimetrar að hæð og sást síðast í Whitehall í Dublin klukkan 11 um morguninn síðasta laugardag.

Hver sá sem gæti haft upplýsingar um Jón er beðin að hringja í lögregluna á Írlandi. Tilkynningu lögreglunnar má sjá hér að neðan.