Henry, Alexandra og Gabriel eru nemendur í Strandgæsluskóla Bandaríkjanna. Þau sigldu til Íslands frá Bandaríkjunum á seglskútu og hafa verið á ferðalagi í fimm vikur. Í gær nutu þau dagsins í Reyjavík, þar sem þau segja að alls staðar megi finna gott kaffi.

„Við komum hingað á seglskútu,“ segir Henry Matamoros Flores, nemi frá Hondúras. Hann skoðaði Hallgrímskirkju í gær ásamt Alexöndru Kukal og Gabriel Berrios. Þau eru öll nemendur í Strandgæsluskóla Bandaríkjanna (e. Coast Guard Academy of the United States) og sigldu hingað til lands frá Bandaríkjunum á seglskútu á vegum skólans.

US Eagle, skólaskip bandarísku strandgæslunnar lagðist að bryggju í Reykjavíkurhöfn í gær.

Henry, Alexandra og Gabriel eru öll 19 ára og hafa verið í fimm vikur á skútunni. Þau hafa meðal annars ferðast á norðurheimskautssvæðið en ljúka nú ferð sinni hér á Íslandi og fljúga heim til Bandaríkjanna á morgun. Þau hafa ekki fengið mikinn frítíma á ferðinni en nutu Reykjavíkur í gær og ætla sér að ganga að eldgosinu í Geldingadölum í dag.

Fiskur og rúgbrauð sló í gegn

„Okkur líkar mjög vel við Ísland og það er geggjaður matur í Reykjavík,“ segir Alexandra og Henry og Gabriel taka báðir undir. „Við fengum geggjað íslenskt rúgbrauð og fisk í gær sem var mjög gaman að smakka,“ segir Gabriel.

Restinni af deginum í gær stefndi þríeykið á að eyða á kaffihúsum borgarinnar. „Það skiptir engu máli hvert við förum, alls staðar er gott kaffi,“ segir Alexandra. „Við fórum til dæmis á Kaffi Babalú sem var frábært, sérstaklega salernið sem var með Star Wars þema,“ segir Gabriel.

Henry, Gabriel og Alexandra eru öll fullbólusett gegn Covid-19 og segjast ánægð með að geta ferðast á ný eftir síðasta ár sem þau eyddu að miklu leyti í sóttkví og einangrun. Þau virðast ekki vera einu ferðamennirnir sem ákveðið hafa að ferðast til Íslands, en Reykjavík er farin að líkjast sjálfri sér aftur með fjölgun ferðamanna sem sjást nú á hverju strái.

Tíðar veðrabreytingar koma á óvart

„Við erum vön hlýrra veðri í júní, en hér er þó mun hlýrra en það var á norðurheimskautinu,“ segir Alexandra. „Það er skrítið hversu hratt veðrið breytist hér,“ segir Henry. „Núna er sól og blíða en rétt áðan var rigning og rok, þetta er eitthvað sem við erum ekki vön,“ bætir hann við.

Þau segjast sammála um að gott verði að koma heim eftir ferðalag. „Við erum búin að vera á skútunni lengi, sofum meira að segja þar.“