Samúel Þór Hermannson, íslenskur veitingamaður, liggur stórslasaður á spítala í Hua Hin eftir mótorhjólaslys fyrir tólf dögum. Samúel var í mánaðarlöngu fríi í Taílandi ásamt fjórtán ára dóttur sinni þegar hann slysið varð, en sjálfur man hann lítið eftir slysinu eða dögunum eftir það.

Átti þrjá daga eftir af fríinu þegar hann slasaðist

„Það er algjört minnisleysi,“ segir Samúel í samtali við Fréttablaðið en hann hefur nú legið á spítala í tæpar tvær vikur. Ekki er víst hvenær hann fær að koma heim til Íslands og telur að vegna alvarlegra höfuðáverka gæti verið mánuður þar til hann geti stigið um borð í flugvél.

Samúel og dóttir hans höfðu, sem fyrr segir, dvalið í tæpan mánuð í Taílandi og áttu einungis þrjá daga af eftir af fríinu þegar slysið varð. Umræddan dag ætlaði Samúel að skreppa örsnöggt út í búð á mótorhjóli sem hann var með á leigu. Hann var búinn hjálmi og er vanur hjólreiðum. Aðspurður kveðst hann telja að bíl hafi ekið í veg fyrir hann en hann var á bak og burt þegar viðbragðsaðila bar að garði..

Samúel segir enga rannsókn hafa verið á slysinu og málinu sé lokið af hálfu lögreglunnar. Höggið var hart, enda hlaut Samúel alvarlega höfuðáverka. „Ég fannst bara tíu metrum frá hjólinu, það er algjört minnisleysi,“ segir Samúel sem sá myndband af sér stórslösuðum á Facebook nokkrum dögum síðar. Á myndskeiðinu, sem gangandi vegfarandi birti í beinni á samfélagsmiðlinum, má sjá Samúel liggja stórslasaðann á götunni. Vegfarendur reyna að vekja hann en að lokum koma sjúkraliðar og fara með hann á brott.

Höfuðkúbubrotnaði og fyrstu dagarnir í móðu

Sem fyrr segir eru áverkar Samúels mjög alvarlegir. Hann höfuðkúpubrotnaði meðal annars og í kjölfarið blæddi inn á heila. Hann er einnig búinn að missa að mestu heyrn, er lamaður í hálfu andlitinu og nefbrotinn.

Fyrsta minning hans eftir slysið er þegar hann lá á spítala og óskaði eftir því að fá að hringja í fjórtán ára dóttur sína en dagarnir eftir það eru einnig í móðu. Hann kveðst þó muna eftir læknum sem tjáðu honum að verið væri að leita að honum, enda sat dóttir hans ein eftir þegar hann slasaðist.

Hua Hin er vinsæll ferðamannastaður. Samúel hafði dvalið í Taílandi tæpan mánuð þegar slysið varð.
Fréttablaðið/Getty

Slysið var mikið áfall fyrir dótturina sem er fjórtán ára en barnsmóðir Samúels kom stuttu seinna og sótti hana. Þá ferðaðist bróðir Samúels til Taílands skömmu síðar til þess að vera hjá honum. Hann kveðst þakklátur að eiga góða að, en í fyrstu var hann færður á almennings sjúkrahús þar sem aðbúnaðurinn var mjög slæmur, síðar var hann færður á annað sjúkrahús.

„Ég var lagður á annan spítala fyrst, almennings spítala, og það var alveg skelfilegt sagði bróðir minn. Núna er ég á betri spítala,“ segir Samúel. „Það er alveg óljóst hvenær ég fæ að fara af spítalanum og hvenær ég fæ að fara í flug út af heilaáverkunum.“

Þrátt fyrir að áverkar Samúels séu alvarlegir segir hann að í dag líði honum betur. Hann segist þakklátur að vera á lífi eftir slysið en honum var vart hugað líf í fyrstu.

„Núna fyrst í dag er ég farinn að skána það voru nú einhverjir sem héldu að ég væri ekkert að koma aftur,“ segir Samúel.

Myndskeið af Samúel eftir slysið var sem fyrr segir birt á samfélagsmiðlum í beinni útsendingu, en vert er þó að vera við að myndskeiðið er ekki við hæfi viðkvæmra. Vill Samúel sjálfur ítreka að hann var með hjálm á mótorhjólinu, en búið var að fjarlægja hann þegar myndbandið er tekið.