Fjölskyldufaðir á fertugsaldri sem býr á höfuðborgarsvæðinu fær á morgun rúmlega 1.270 milljónir króna í hendurnar. Eftir millifærsluna á morgun verður hann nýjasti milljarðamæringur Íslands. Hann fær 1.270.806.970 krónur í einni greiðslu — skattfrjálst.

Stærsti vinningshafi í sögu Víkingalottó á Íslandi hefur þurft að bíða í heilar fjórar vikur eftir vinningnum sínum. Þessi lukkunnar pamfíll var einn með 2. vinning en vegna kerfisbreytinga var hann margfalt hærri en venja er.

Maðurinn keypti miðann á lotto.is, hann er ekki í áskrift og valdi sjálfur tölurnar og innihéldu þær meðal annars afmælisdaga einstaklinga í lífi hans. Fyrstu viðbrögð vinningshafans voru að fara í góðan göngutúr og sagði hann svo konu sinni frá vinningnum að loknum göngutúrnum.

Daginn eftir gleðifréttirnar mætti hann á skrifstofu Íslenskrar getspár til að þiggja boð um fjármálaráðgjöf.

Halldóra María Einarsdóttir, markaðsstjóri Íslenskrar getspár, segist ekki hafa séð hann síðan þá en hann þarf ekki að mæta í eigin persónu til að taka við vinningum. Hann fær peningana í gegnum millifærslu og fylgist þá sennilega spenntur með innistæðunni á reikningnum rjúka upp.