Sjö ára íslenskur drengur er nú langveikt barn eftir að hafa greinst með COVID-19 en drengurinn, Natan Helgi, lá á spítala í Svíþjóð í ellefu daga eftir að hafa greinst með sjúkdóm sem tengist COVID-19. Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem rætt var við fjölskyldu drengsins.
Lá inni á spítala í ellefu daga
Móðir Natans, Hulda Dóra Höskuldsdóttir, greindi frá því í viðtali hjá Stöð 2 að fjórir af fimm í fjölskyldunni, sem býr nú í Stokkhólmi, hafi greinst með veiruna síðastliðinn ágúst. Natan hafi glímt við væg einkenni en eftir að hann losnaði við sjúkdóminn hafi hann glímt við mikil eftirköst.
„Hann var lagður inn á Södersjukhuset í Stokkhólmi og þá var hann orðinn lífshættulega veikur,“ sagði Hulda en Natan var í lífshættu í viku meðan hann lá inni á sjúkrahúsi vegna svokallaðs bráðabólguheilkennis (s. hyperinflammation). Um var að ræða lífshættulegan sjúkdóm sem ræðst á líffæri.
Ræðst helst á börn
Að sögn Huldu veit enginn af hverju sjúkdómurinn tengist COVID-19 en hún segir að í Svíþjóð hafi 70 hafi greinst með sjúkdóminn sem ræðst helst á börn. Natan þurfti á ýmsum lyfjum að halda en hann útskrifaðist loks af spítalanum í október.
„Eftir Covid er Natan í raun langveikt barn en við horfum á björtu hliðarnar, Natan er á lífi og við ætlum í gegnum þetta, hann mun verða full frískur á ný,“ sagði Hulda sem vill nú upplýsa fólk um sjúkdóminn.
Viðtalið við Huldu í heild sinni má nálgast á vef Vísis.