Íslenskur karlmaður á sextugsaldri, Ómar Traustason, hefur verið dæmdur í átta og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa misnotað að lágmarki sex börn á Spáni á árunum 2020 og 2021 í bænum Torre-Pachecho.

Murciatoday greinir frá málinu.

Í fréttinni kemur fram að Ómar hafi áður verið dæmdur fyrir að nauðga fjórum börnum á Íslandi árið 1988.

Ómar játaði að hafa brotið á sex af átta börnum sem öll eru undir 16 ára aldri. Hann játaði að hafa ofboðið siðferðiskennd tveggja barna, sýna þremur þeirra klámfengið efni og fyrir að eiga óviðeigandi samskipti við þrjú þeirra og sýna þeim barnaníðsefni.

Samkvæmt erlendum fjölmiðlum áttu brotin sér stað frá maí 2020 til haustsins 2021, þegar Ómar var loks handtekinn.

Fórnarlömb hans eru börn á aldrinum níu til fimmtán ára. Er maðurinn sagður hafa vingast við börnin og unnið sér traust þeirra með göngutúrum með hundinn sinn.

Þá er Ómar jafnframt sagður hafa reynt að snerta kynfæri tveggja þeirra. Ómar bauð börnunum pening gegn því að þau kæmu ein í heimsókn til hans og hefðu samræði við hann.

Dómurinn er skilorðsbundinn að öllu leyti sem þýðir að Ómar mun ganga laus nema hann brjóti af sér aftur.

Í fréttum 2013

Fréttablaðið greindi frá brotum Ómars Traustasonar í mars 2013. Þá hafði Ómar fengið þriggja ára fangelsisdóm fyrir að brjóta ítrekað og gróflega gegn pilti sem var þá 14 og 15 ára.

Hann veitti piltinum húsaskjól eftir að fjölskylda hans var heimilislaus, gaf honum mat og nestispeninga og hélt að honum fíkniefnum.

Árið 1993 var Ómar dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum drengjum í Vestmannaeyjum, þar sem hann var þá búsettur.

Frá árinu 1998 til 2013 hafði Ómar því verið uppvís að brotum gegn minnst sex drengjum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hér má sjá umfjöllun Fréttablaðsins árið 2013.
Fréttablaðið/Mars 2013