Herlögreglan á Spáni óskaði eftir aðstoð íslenskra lögregluyfirvalda vegna rannsóknar á hvarfi fjórtán ára stúlku í borginni Almería í síðustu viku. Að því er kemur fram í frétt Vísis um málið fannst stúlkan til allrar hamingju eftir að hún hafði verið týnd í fjóra daga. Hún fannst í fylgd nítján ára gamallar pólskrar konu sem talið er að hafi ætlað með stúlkuna úr landi.
Vísir greinir frá því að alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hafi borist beiðni frá Spáni í málinu í tengslum við rétthafa á símanúmeri sem kann að vera íslenskt. „Þeirri beiðni var svarað og afgreidd hjá Alþjóðadeild,“ hefur Vísir eftir Guðbrandi Guðbrandssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni. „Engin frekari beiðni um aðstoð hefur borist og er rannsókn málsins á forræði spænskra yfirvalda.“
Málavextir voru þannig að eftir hvarf stúlkunnar spurðist út frá vinum hennar að hún væri með erlendri konu sem hún þekkti af netinu, en stúlkan ku hafa kynnst eldri konunni í gegnum tölvuleik á netinu. Þegar lögreglan leitaði í herbergi stúlkunnar fundust þar tölvugögn sem spænskir miðlar segja hafa haft úrslitaáhrif á úrlausn málsins.
Lögregluaðgerðin sem hófst eftir að upplýsingarnar lágu fyrir báru íslenska heitið „Katla“. Ekki liggur fyrir að öðru leiti hver tengsl Íslands við málið kunna að vera.