„Þýskaland er stór markaður og opnar auk þess dyr inn í Austurríki og Frakkland,“ segir Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Icelandic Lamb. Samningar hafa tekist á milli Kjarnafæðis, Icelandic Lamb og þýsks fyrirtækis, RW-Warenhandels MBH, um útflutning á íslensku lambakjöti.

Skrifað var undir samninga nú í september. Svavar segir við Fréttablaðið að afar spennandi tímar séu í vændum. Mikil vinna hafi verið lögð í að finna markaði sem versli með hágæða vörur á góðu verði. Nokkur afar spennandi verkefni séu nú vel á veg komin.

Unnið hefur verið að undirbúningi Þýskalandsverkefnisins í um tvö ár. Fulltrúar fyrirtækjanna hafa heimsótt löndin á víxl. Svavar segir að mjög faglega hafi verið staðið að öllu hjá Þjóðverjunum og að undirbúningurinn hafi verið til fyrirmyndar. Sex fyrirtæki komi að samningunum.

Einkaleyfi á Icelandic lamb í Þýskalandi

Í samningnum felst að þýski samstarfsaðilinn hefur einkaleyfi á að nota vörumerki í eigu sauðfjárbænda; Icelandic Lamb – Roaming Free Since 874.

Lambið verður flutt út í heilum skrokkum og skorið í kjötvinnslu í Frakklandi. Það verður til að byrja með selt til verslana en síðar til veitingastaða. Svavar segir ljóst að Þýskalandsmarkaður geti orðið mikilvægur markaður fyrir íslenskt lambakjöt.

RW-Warenhandels hefur samið við fjölskyldufyrirtækið Albert Rauch GmbH, sem hefur útbúið sitt eigið vörumerki fyrir íslenskt lambakjöt í smásölu í Þýskalandi. Það sé til marks um tiltrú Þjóðverja á verkefninu. Albert Rauch mun selja íslenska kjötið undir vörumerkinu Vikingyr. Það verður þó líka merkt Icelandic Lamb.

Bændur gætu fengið meira

Eins og áður segir verður lambið skorið ytra. Það verði gert í sérhæfðri og mjög tæknilega fullkominni kjötvinnslu sem vinni um eina milljón lambaskrokka á ári. Svavar segir að íslenskir bændur gætu fyrir vikið fengið meira í sinn hlut. „Kostnaðurinn við vinnsluna verður minni,“ segir hann en verðið til bænda ræðst að nokkrum hluta til af þeim þætti.

Svavar segir að með þessum samningum opnist möguleikar á mörkuðum í Frakklandi og Austurríki. Það sé mjög spennandi því verð á lambakjöti sé hvergi hærra en í Frakklandi. „Framtíðarstefnan er að finna nokkra erlenda markaði. Við erum að fara úr því að flytja út ódýrt kjöt í miklu magni í að finna minni og betur borgandi markaði.“

Einungis með íslenskt lamb á matseðli

Aðilar samningsins vilja ekki gefa upp hversu stór samningurinn er. Þó má segja að sennilega verði um að ræða nokkurn hluta íslenskrar framleiðslu á lambakjöti, að fáum árum liðnum. Miðað við þá reynslu sem fengist hefur af sambærilegu verkefni í Japan má reikna með að samningurinn gæti hlaupið á hundruðum tonna.

Svavar segir að útrás íslenska lambakjötsins gangi vel. Mikil vinna sé að baki en ekki hafi öll verkefnin gengið upp. „Við erum með nokkur mjög góð verkefni í gangi. Japan og Þýskaland eru komin vel af stað,“ segir hann en Japanir keyptu 200 tonn í fyrra. Íslenskt lambakjöt er á matseðli á yfir hundrað veitingastöðum í Japan. Fjórir staðir eru að sögn Svavars einungis með íslensk lambakjöt á matseðli, auk drykkja og meðlætis. Til viðbótar séu ágætir markaðir á Spáni og í Bandaríkjunum, þar sem íslenskt lambakjöt sé á boðstólnum. „Það eru mjög mörg jákvæð teikn á lofti.“