Japanska hvalveiðifyrirtækið Kyodo Senpaku mun opna fjórar sjálfsafgreiðslubúðir með hvalkjöt. Þar munu Japanir geta keypt íslenskt hvalkjöt sem samið hefur verið um kaup á.

Samkvæmt fyrirtækinu verða búðirnar opnaðar um miðjan febrúar. Flutt verða inn nærri 3 þúsund tonn af langreyðarkjöti frá Íslandi á hverju ári til sölu í búðunum, sem verða í Tókýo, Osaka og Yokohama.

Kyodo Senpaku hefur þegar hafið prufusölu í sjálfsala á einum stað í Tókýo. Sá var opnaður í lok desember og er merktur „hvala búð.“ Þar er auk annars hægt að kaupa hrátt hvalkjöt sem er meðal annars notað í sushi. En einnig eldað og niðursoðið hvalkjöt af ýmsu tagi.

Samkvæmt fréttasíðunni Asia News var hvalkjöt næstvinsælasta kjötið í Japan árið 1962, á eftir svínakjöti, og seldust 233 þúsund tonn árlega. Nú er hins vegar neyslan aðeins 1 þúsund tonn og stjórnvöld vilja auka neysluna. Meðal annars með því að bjóða upp á hvalkjöt í skólum.

Að sögn Kozue Mihira, sölustjóra Kyodo Senpaku, hefur salan farið mjög vel af stað þrátt fyrir að vörurnar séu ekki verðlagðar lágt. Hafi salan farið fram úr væntingum og fyrirspurnir um hvar sé hægt að kaupa kjötið margar.