Íslenska vörumerkið Emory, sem framleiðir og hannar íþróttafatnað hefur selt buxur frá AliExpress-buxur undir sínu vörumerki.

Glöggur neytandi benti á það í Facebook-hópnum Verslun á netinu í gær að vinkona sína hefði pantað buxur frá Emory. Þegar hún hefði svo skoðað miðann á buxunum hefði komið í ljós að um sömu buxur var að ræða og hún hefði pantað af kínversku netversluninni AliExpres fyrir stuttu. Eini munurinn á vörunni hafi verið Emory merkið sem búið var að bæta við.

Málið vakti töluverða athygli í hópnum og kom í ljós að fleiri vörur undir merki Emory var að finna á vefsíðu AliExpress á töluvert lægra verði. Buxurnar sem um ræðir voru keyptar á AliExpress á 4.400 krónur, með sendingarkostnaði. Með aðflutningsgjöldum, umsýslugjöldum og sendingargjaldi Póstsins eru þær á um 6.500 krónur en á Emory voru sömu buxurnar á 8.490 krónur.

Íslensk hönnun

Á vefsíðu Emory segir að um íslenskt vörumerki sé að ræða sem framleiðir íþróttafatnað hannaðan af Önnu Sóleyju Birgisdóttur, sem er einnig stofnandi og eigandi Emory.

Anna Sóley sagði í viðtali við Smartland árið 2018 að hún væri orðin þreytt á háu verðlagi og litlu úr­vali af íþróttafötum hér á landi. „Ég ákvað því að hanna mína eig­in línu og bjóða föt­in á betra verði,“ sagði Anna Sól­ey.

Þessa flík var einnig að finna inni á AliExpress en hún er seld undir vörumerki Emory.
Fréttablaðið/Skjáskot

Mikil umræða skapaðist á Facebook vegna málsins og sagðist fólk gera sér grein fyrir því að íslensk hönnun væri oftar en ekki framleidd í Kína en það að auglýsa vöru sem íslenska hönnun sem er það augljóslega ekki væru vörusvik.

Fréttablaðið reyndi að ná sambandi við Önnu Sóleyju, eiganda Emory, án árangurs. Hún tjáði sig þó um málið á þræðinum og viðurkennir að það hafi verið mistök af sinni hálfu að taka það ekki fram að fáeinar vörur á síðunni væru ekki hennar hönnun. Eftir að umræðan hófst í gærkvöld uppfærði Emory upplýsingar um tilteknar vörur og textinn „þessi tiltekna vara er ekki hönnuð af Emory“ bætt við.

„Í þessi 5 ár sem ég hef verið með Emory þá hef ég hannað allar vörur sjálf. Ég teikna flíkina upp sem saumastofur í Pakistan, Kína og fleiri löndu sauma fyrir mig," skrifar Anna Sóley.

Hún segir vegna kórónuveirufaraldurisns hafi saumastofurnar þurft að vinna við miklar takmarkanir og þurft að loka í nokkrar vikur.

„Í sumar var orðin 4 mánaða bið eftir að fá vörur afhentar og ég átti rosalega lítið til á lager hér á Íslandi. Ein saumastofan úti bauð mér að kaupa vörur sem þau áttu tilbúnar á lagernum hjá sér og ég gæti fengið þær á einungis 3 vikum. Ég ákvað að taka inn 3 vörur sem þau áttu til á lager því ég er auðvitað með fastan rekstrarkostnað og þurfti að halda fyrirtækinu á floti."

Sárnar ljót ummæli og að nafn fyrirtækisins sé svert

Hún segist hafa lagt líf sitt og sál í fyrirtækið og ekki tekið krónu út úr fyrirtækinu.

„Þið gerið ykkur kannski ekki grein fyrir því hvað það er dýrt og erfitt að reka fyrirtæki á Íslandi. Og mér sárnar mjög við að sjá svona ljót „comment" um einhvern sem á það innilega ekki skilið. Mér þykir það mjög leiðinlegt að þið séuð að missa trú á íslenskum fyrirtækjum og að kalla fólk svikahrappa. Ég hef sjálf lent í því að minni hönnun hefur verið stolið og seld á AliExpress og fleiri slíkum síðum, en lítið í því hægt að gera því ég á auðvitað ekki skráðan einkarétt á hönnuninni."

Að lokum býðst hún til að endurgreiða þeim neytendum sem eru ósáttir við buxurnar.