Fjallað var ítarlega um blóðmerahald á Íslandi í þætti Plusminus í gærkvöldi á einni vinsælustu sjónvarpsstöð Þýskalands, Das Erste.

Þátturinn svipar til Kveiks á RÚV og er fréttaskýringaþáttaröð sem kryfur mál bæði innanlands og utan. Þættirnir eru sýndir vikulega og hafa verið í gangi frá 1975. Þátturinn í gær hét Hvers vegna íslenskir hestar blæða fyrir ódýra snitselið okkar.

Íslenski hesturinn er gríðarlega vinsæll í Þýskalandi. Í þættinum má sjá viðbrögð þýskra eigenda íslenskra hesta við myndbandi um blóðmerahald á Íslandi.
Mynd: Das Erste

Í þættinum er fjallað um notkun hormónsins PMSG eða eCG í þýskri svínaframleiðslu og rætt við fulltrúa Animal Welfare Foundation, sem rannsökuðu blóðmerahald á Íslandi og birtu myndband og skýrslu um dýraníð sem þau urðu vitni að á íslenskum blóðtökubæjum.

Þýskir eigendur íslenskra hesta fylgjast með myndbandi AWF í þættinum og má sjá á viðbrögðum þeirra að þeir höfðu enga hugmynd af blóðmerahaldi væri stundað á Íslandi. Einnig er sýnt hvernig hormónið er sprautað í gyltur og aðstæður sýndar á þýskum svínabúum þar sem lítið sem ekkert pláss er fyrir dýrin.

Hormóni er sprautað í gyltu á þýsku svínabúi.
Mynd: Das Erste

„Samtök íslenska hestsins eru starfandi í yfir 20 löndum um allan heim og eru málefni hans ekki einkamál einstaka bænda hér á landi.“

Íslenski hesturinn vinsæll í Þýskalandi

Þýskaland er gríðarlega mikilvægt land fyrir útflutning en mest hefur verið flutt af íslenskum hestum til Þýskalands og Skandinavíu.

Stjórn Félags Tamningamanna sagði í umsögn sinni við frumvarpi Ingu Sæland um bann á blóðmerahaldi að ekki væri hægt að neita að ímynd Íslands og íslenska hestsins hafi skaðast eftir að vakin var athygli á blóðmerahaldi.

„Að meirihluti hrossastofnsins í landinu sé notaður til að framleiða lyf við mjög vafasamar aðstæður, sem eykur afurðir gyltna í verksmiðjubúum erlendis samræmist ekki ímynd Íslands eða íslenska hestsins heldur er henni raunveruleg ógn eins og rök hafa verið færð fyrir.“

Úr myndbandi samtakanna AWF.
Mynd: AWF

Sömuleiðis hvöttu Samtök ferðaþjónustunnar stjórnvöld, starfshóp ráðherra og atvinnuveganefnd, að leita ráða hjá Horses of Iceland sem hafa sagt blóðmerahald mikinn skell fyrir ímynd landsins.

„Samtök íslenska hestsins eru starfandi í yfir 20 löndum um allan heim og eru málefni hans ekki einkamál einstaka bænda hér á landi heldur þarf að hafa í huga orðspor íslenska hestsins um allan heim í huga,“ segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar.