Smá­forritið Lilja app varð í þriðja sæti í ný­sköpunar­keppninni Gul­legginu í byrjun febrúar. For­ritið sigraði síðan í Wo­mens In­novators-hraðlinum sem fór fram í maí, á vegum Wo­men Tech Iceland og Huawei.

„Við vorum í kjöl­farið boðnar út til Prag og beðnar að halda erindi,“ segir Inga Henrik­sen, annar stofn­enda og eig­enda for­ritsins.

Inga og Ár­dís R. Einars­dóttir, eig­endur Lilja app, þekkja heimilis­of­beldi af eigin raun. Þær fluttu á­hrifa­mikla tölu á til­finninga­þrunginni stund í Martinický-höllinni í Prag á föstu­dag, og upp­skáru gríðar­leg við­brögð. Stofnandi sumar­skólans sagði fyrir­lesturinn vera mikil­vægasta erindið sem flutt hefði verið alla vikuna.

Frá Martinický-höllinni í Prag þar sem leiðtogaskólinn fór fram.
Fréttablaðið/Aðsent

„Appið er hugsað sem for­vörn gegn kyn­ferðis­brotum. Því er ætlað að gefa vissan fælingar­mátt og létta á sönnunar­byrði í þeim málum, á­samt því að vera fyrir þol­endur heimilis­of­beldis. Ekkert sam­bæri­legt er til í heiminum í dag.“

Inga segir grunninn að smá­forritinu vera fyrir­tækja­lausnina sem við komi við­kvæmum málum innan fyrir­tækja. „Fyrir­tækja­lausnin á að gera appinu kleift að vera öllum að kostnaðar­lausu.“

Inga segir að í gær­morgun hafi farið fram fundur hjá tékk­neskum tækni­risa sem hyggst inn­leiða smá­forritið og þróa það að fullu. „Svipaðan á­huga er að finna víðs vegar að, svo að það verður spennandi að fylgjast með fram­haldinu,“ segir Inga.

Evrópski kven­leið­toga­skólinn, á ensku Sum­mer School for Fema­le Lea­ders­hip in the Digi­tal Age, var haldinn í þriðja sinn frá stofnun og er fjár­magnaður af Evrópska þjálfunar­sjóðnum, ETF og kín­verska tækni­risanum Huawei. Þar fá 29 ungar konur á aldrinum 18 til 20 ára, ein frá hverju aðildar­landi Evrópu­sam­bandsins auk þátt­takanda frá Úkraínu og annars frá Vestur-Balkan­landi, tæki­færi til að sitja nám­skeið hjá leið­togum á sviði al­þjóða­sam­skipta, net­öryggis­mála, stjórn­mála og við­skipta.

Stofnandi og stjórnandi sumar­skólans er Berta Her­rero, for­seti jafn­réttis- og fjöl­breyti­leika­nefndar Evrópu­deildar Huawei. Áður gegndi Berta stöðu yfir­manns al­manna­tengsla hjá Huawei í Evrópu. Hún hefur auk þess gegnt stöðu að­stoðar­manns vara­for­seta Evrópu­þingsins. Berta starfaði um ára­bil sem blaða­maður hjá El Mundo í Madrid.

Á fimmta tug fyrirlesara fræddi nemendur Leiðtogaskólans um viðskiptalíf, stjórnmál og leiðtogahæfni á stafrænnni öld.
Fréttablaðið/Aðsent

Varðandi til­drög Leið­toga­skólans segir Berta að á mennta­skóla­árunum hafi hana skort al­menni­lega yfir­sýn yfir þá mögu­leika sem henni stóðu til boða, og við­horf til kvenna­starfa hafi spilað þar hlut­verk.

„Ég hafði ekki endi­lega yfir­sýn yfir alla þá mögu­leika sem konur hafa að­gang að. Að ein­hver eins og ég gæti orðið verk­fræðingur, stjórnandi á sviði net­öryggis­mála eða hvað sem er. Við­horfið var ekki inn­stillt á það,“ segir hún.

„Það sem við reynum að gera hér í leið­toga­skólanum og ég reyni að gera per­sónu­lega í mínu starfi er að veita ungum konum yfir­sýn yfir þann mikla fjöl­breyti­leika í námi og at­vinnu sem þeim stendur til boða. Þetta er ekkert endi­lega alltaf spurning um peninga,“ segir hún.

„Nem­endur í leið­toga­skólanum sýna að allt er hægt. Við höfum frá upp­hafi fengið meira en 6.000 um­sóknir. Á­huginn er þarna og metnaðurinn er þarna. Við þurfum að jafna tæki­færin og þangað til það tekst er þörf á prógrammi á borð við þetta.“

Í leið­toga­skólanum er sterkur fókus á geð­heilsu og fjögurra manna teymi sinnir þátt­tak­endum eftir þörfum. Meðal fyrir­lesara í Prag voru með­limir Evrópu­ráðs og Evrópu­þingsins, full­trúar ný­sköpunar­ráðs Evrópu og staf­rænir leið­togar hjá fremstu fjöl­miðla­sam­steypum heims. Þá voru full­trúar net­öryggis­stofnana og Geim­ferða­stofnunar Evrópu á mælenda­skrá.

Ljóst er að rík þörf er á lausnum í þessum mála­flokki og töl­fræðin talar sínu máli.

Sam­kvæmt gögnum frá WHO frá árinu 2013 eru 18 konur myrtar á dag í Evrópu og þar af eru 12 þeirra morða framin af ein­stak­lingi sem er ná­tengdur fórnar­lambinu. Það gera 6.570 morð á ári í Evrópu. Sé horft utan álfunnar eru tölurnar miklu hærri, eða 52.560 konur á ári. Þá verða 150 milljónir stúlkna fyrir nauðgun eða kyn­ferðis­of­beldi á hverju ári.