Ís­lenskir Ólympíufarar hafa litlar á­hyggjur af á­standinu í Tókýó, segir Andri Stefáns­son aðal­farar­stjóri hópsins. Fyrr í dag lýsti forsetisráðherra Japans, Yoshihide Suga, yfir neyðar­á­standi vegna aukinna kórónu­veiru­smita og boðar hertar tak­markanir sem búist er við að verði í gildi yfir Ólympíu­leikana.

„Við fylgjumst vel með á­standinu og ég á ekki von á að þessar að­gerðir, þessar tak­markanir sem verið er að tala um núna, muni endi­lega koma við í­þrótta­fólkið sjálft. Þetta mun meira snúa að á­horf­endum og þessu dag­lega lífi í Tókýó,“ segir Andri.

Skipuleggjendur leikjanna tilkynntu í dag að áhorfendur verði ekki leyfðir á þeim svæðum sem neyðarástand er í gildi.

Hann segir heilsu og öryggi kepp­enda á Ólympíu­leikunum alltaf vera í miklum for­gangi. Hópurinn þarf ekki að sæta sótt­kví við komuna til Tókýó en verður í eins­konar búbblu í Ólympíu­þorpinu þar sem gilda strangar reglur um ferða­lög og sam­gang.

Þá segist Andri trúa því að ís­lenski hópurinn muni passa sig vel og fylgja þeim reglum sem hafa verið settar. „Það sýnir sig hvað er búið að ganga vel hérna á Ís­landi, við kunnum að fylgja reglum. Ég er ekki í neinum vafa um það að okkar fólk muni vera á tánum,“ segir hann.

Færri Íslendingar unnu sér inn keppnisrétt að þessu sinni í samanburði við undanfarna leiki. Margar alþjóðlegum keppnir voru frestaðar eða felldar niður vegna far­aldursins auk þess að lágmörk fyrir þátt­töku hafa verið strangari en oft áður og mikil sam­keppni að utan.

Andri heldur að þetta verði ein­stakir leikar en að hópurinn sé brattur og bíði spennt eftir að komast í keppnina. „Við vitum ekki alveg í hvað við erum að fara en við erum til­búin að glíma við það úti,“ segir hann.

Fjórir keppendur fara til Tókýó í ár. Það eru Anton, Ásgeir, Guðni og Snæfríður.
Samsett mynd/ÍSÍ

Á mánu­dag stað­festi Í­þrótta- og Ólympíu­sam­band Ís­lands val á því í­þrótta­fólki sem fer á Ólympíu­leikana í Tókýó. Þau eru Anton Sveinn Mckee sem keppir í sundi, Ás­geir Sigur­geirs­son sem keppir í loft­skamm­byssu, Guðni Valur Guðna­son sem keppir í kringlu­kasti og Snæ­fríður Sól Jórunnar­dóttir sem keppir í sundi.

Með hópnum fara að auki þrír þjálfarar, tveir sjúkra­þjálfarar, sál­fræðingur, læknir og tveir farar­stjórar.