Fé­lag ís­lenskra náttúru­fræðinga (FÍN) hefur kært skipun Fé­lags­dóms til Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu.

Stéttar­fé­lagið telur skipunina brjóta í bága við á­kvæði 6. gr. mann­réttinda­sátt­mála Evrópu sem ætlað er að tryggja máls­með­ferð fyrir sjálf­stæðum, ó­háðum og ó­vil­höllum dóm­stól.

Brot gegn þessari reglu telur FÍN felast í því fyrir­komu­lagi í ís­lenskum lögum að Hæsti­réttur til­nefni meiri­hluta dómara Fé­lags­dóms.

Kæran varðar dóms­mál sem ný­verið var rekið fyrir Félagsdómi af fé­laginu og einum fé­lags­manni þess gegn ís­lenska ríkinu. Það er mat kær­enda að hann hafi ekki hlotið rétt­láta máls­með­ferð fyrir dóm­stólnum þar sem Fé­lags­dómur sé ekki sjálf­stæður, ó­háður og ó­vil­hallur dóm­stóll í skilningi sátt­málans.

Sam­kvæmt á­kvæðum laga nr. 80/1938 eru þrír af fimm dómurum Fé­lags­dóms skipaðir sam­kvæmt til­nefningu Hæsta­réttar. Engin sér­stök laga­á­kvæði eða reglur gildi hins vegar um fyrir­komu­lag þess þegar Hæsti­réttur til­nefnir þá dómara ó­líkt ís­lenskum laga­reglum sem gilda um skipanir dómara við aðra dóm­stóla landsins.

Í kærunni er bent á að Hæsti­réttur sé ekki bundinn af neinum máls­með­ferðar­reglum við á­kvörðun um það hvaða ein­stak­linga hann til­nefnir sem dómara í Fé­lags­dóm.

Til­nefningar­ferlið sé því al­gjör­lega ó­gagn­sætt. Í kærunni greinir að þar sem til­teknir dómar og úr­skurðir Fé­lags­dóms sæti kæru til Hæsta­réttar dragi öll af­skipti Hæsta­réttar, bein og ó­bein, af skipan dómara við Fé­lags­dóm, úr á­sýnd Fé­lags­dóms um sjálf­stæði hans.

Fáist það því vart staðist að sami dóm­stóll og er æðri dóm­stóll gagn­vart Fé­lags­dómi í til­teknum málum til­nefni dómara í undir­dóm­stólinn, hvað þá meiri­hluta dómsins.

Í kærunni er vísað til skýrslu GRECO frá árinu 2013, þar sem hafðar eru uppi efa­semdir um skipunar­ferli Hæsta­réttar á dómurum í Fé­lags­dómi. Meðal þess sem GRECO finni að í skýrslu sinni er að um­ræddar dómara­stöður séu ekki aug­lýstar opin­ber­lega til um­sóknar og að sam­bæri­leg, óháð og gagn­sæ máls­með­ferð sé ekki við­höfð líkt og þegar dómarar eru skipaðir við aðra dóm­stóla lands.