„Við höfum nú þegar sett heimsmet og bara spurning hversu hátt við náum, hversu stórt metið verður,“ segir Gunnar Helgason, rithöfundur og landsliðsþjálfari í lestri, í samtali við Fréttablaðið. En í gær var síðasti dagur lestrarátaksins Tími til að lesa, sem staðið hefur yfir allan aprílmánuð. Markmið átaksins var að hvetja börn og fólk á öllum aldri til að lesa þrátt fyrir skert skólahald og samkomubann vegna kórónaveirufaraldursins og setja um leið heimsmet í lestri.

„Við erum svo heppin á þessu landi að vera með menntamálaráðherra sem hefur ástríðu fyrir auknum lestri barna og betri lesskilningi. Það var sem sagt Lilja Alfreðsdóttir sem bað mig að koma í hugmyndavinnu um þetta verkefni því hana langaði að gera eitthvað stórt fyrir börn þessa lands þegar ljóst var hvernig aprílmánuður yrði í þessu kórónaástandi,“ segir Gunnar.

Í kjölfar hugmyndar Lilju var átakinu hrint í framkvæmd og var þátttakan gríðarleg. „Stóra markmiðið var að börnum færi ekki aftur á meðan skólarnir voru lokaðir til hálfs eða fulls og til að hvetja þau til að taka þátt var ákveðið að setja heimsmet. Krakkar elska heimsmet og við gáfum þeim tækifæri til að vera með í að setja algerlega glænýtt heimsmet,“ segir Gunnar.

Í heimsmetinu felst að íslenska þjóðin lesi á einum mánuði í fleiri mínútur en nokkru sinni hefur verið gert áður. Gunnar segir að samkvæmt upplýsingum frá Guinness sé um nýja tegund heimsmets að ræða. „Það hefur hvergi áður í heiminum verið reynt við þetta þannig að við höfum svo sannarlega sett nýtt heimsmet. Sem við stefnum auðvitað á að kynna vel úti um heim allan og slá svo á næsta ári,“ segir hann.

Þegar Fréttablaðið fór í prentun höfðu þátttakendur í átakinu lesið í samtals 7.868.196 mínútur, það eru 14 ár, ellefu mánuðir, 15 dagar, sautján klukkustundir og 6 mínútur. Hafnfirðingar áttu flestar lesnar mínútur og fast á hæla þeim komu íbúar í póstnúmeri 105. Þá höfðu íbúar í Reykhólahreppi vinninginn í lestri á hvern einstakling.

Gunnar segir mikilvægt fyrir fólk á öllum aldri að lesa en sérstaklega sé mikilvægt að hvetja börn til lestrar. „Ef börn lesa mikið gengur þeim betur í skóla, vinnu, hjónabandi og foreldrahlutverki. Það er einfaldlega búið að kanna þetta og sanna. Svo við tölum nú ekki um framtíð íslenskunnar. Viljum við halda henni? Þá verðum við að gera eitthvað í því og partur af því er að lesa meira.“