Fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir víðs vegar í Kína síðustu daga og hafa þau ekki verið jafn útbreidd í landinu í meira en þrjá áratugi. Mótmælin fara nú fram í að minnsta kosti sex kínverskum stórborgum og hafa sumir kallað eftir afsögn Xi Jinping forseta.
Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands, segir að aðsóknin í kínverskunám hafi dregist saman á undanförnum árum og grunar hann að stjórnarstefna Xi Jinping hafi orðið til þess að Kína sé ekki eins aðlaðandi land og það var áður.
„Ef það verður einhver útbreiðsla á þessum mótmælum þá hugsar fólk sig náttúrlega tvisvar um áður en það fer.
Ég gæti líka ímyndað mér að þeir sem fara út myndu síður vilja fara í þessar stórborgir eins og Peking og Sjanghaí og færu frekar í minni héraðsborgir. Svo eru örugglega fleiri sem vilja bara fara til Taívan,“ segir Geir.
Hann bætir við að stjórnvöld hafi lýst því yfir að aflétta ætti sóttvarnaaðgerðum 11. nóvember síðastliðinn í tuttugu skrefum en svo hafi ekkert orðið úr því. „Það eru svo margir óvissuþættir sem við þurfum að glíma við núna.“

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós var stofnuð árið 2008 og hefur síðan þá boðið upp á nám í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands. Tilgangur stofnunarinnar er fyrst og fremst kínverskukennsla og stuðlar hún einnig að fræðslu um tungu, menningu og samfélag í Kína.
Námið felur í sér ársdvöl í Kína áður en nemendur ljúka þriggja ára BA-námi í kínverskum fræðum. Eftir að Covid-19 skall á var sá möguleiki ekki lengur til staðar en nú í haust byrjuðu kínversk yfirvöld að hleypa námsmönnum aftur inn í landið. Þrátt fyrir það fór enginn íslenskur kínverskunemi til Kína þetta árið.
Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa, tekur í sama streng og segir að óvissan og svikin loforð eigi stóran þátt í því að mótmælin hafi komið svona skyndilega. Almenningur í Kína hafi gert sér ákveðnar væntingar um að stjórnvöld myndu aflétta sóttvarnareglum eftir flokksþing kommúnistaflokksins en það var ekki gert og sér fólk nú ekki fram á neinn endi.
Íslenskir námsmenn í kínverskum fræðum geta nú sótt um skiptinámsdvöl í Kína fyrir næsta skólaár en spurningin er hvert ferðinni verður heitið.
„Þeir nemendur sem vilja vera í kínversku tungumálaumhverfi gætu valið Taívan. En flestir vilja náttúrlega fara til meginlandsins. En ef það verður engin breyting á þessari „núll-stefnu“ stjórnvalda þá gæti það breytt ferðaáætlunum námsmanna,“ segir Magnús.