Íslenskir kennarar hafa meiri trú á sjálfum sér en aðrir kennarar á Norðurlöndum varðandi það að glæða áhuga nemenda sem eru áhugalitlir um námið. Kennarar hérlendis eru einnig ánægðir með starf sitt þegar á heildina er litið en síður ánægðir með laun sín og viðhorf þjóðfélagsins til kennarastarfsins.

Þetta kemur fram í niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem var framkvæmd á vegum Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD). Rannsóknin ber yfirskriftina TALIS og eru viðhorf kennara og skólastjórnenda til starfa sinna skoðuð í henni. Kennarar og skólastjórar á unglingastigi allra grunnskóla landsins voru í úrtaki könnunarinnar en svarhlutfallið var um 75%.

Meðal þess sem kemur fram í niðurstöðunum þegar litið er til Íslands er að viðhorf íslenskra kennara til starfsins virðist nokkuð frábrugðið viðhorfi kollega þeirra frá hinum Norðurlöndunum. Tækifæri til þess að gera gagn í samfélaginu og hafa áhrif á þroskaferli barna og ungmenna höfðu þannig mest áhrif á ákvarðanir þátttakenda um að gerast kennarar. Einkenni starfsins, samfelldur starfsferill eða trygg afkoma höfðu meiri áhrif í öðrum löndum.

Íslenskir kennarar hafa einnig meiri trú á sjálfum sér til að glæða áhuga nemenda sem eru áhugalitlir um námið og eru á heildina litið ánægðari með starf sitt en aðrir kennarar á Norðurlöndum. Þeir eru einnig áhugasamari um að nota mismunandi námsmatsaðferðir og leggja góð verkefni fyrir nemendur sína. Ánægja með laun og viðhorf þjóðfélagsins til kennarastarfsins er þó minni hérlendis í samanburði við önnur þátttökulönd.

Agi og bekkjarstjórnun eru einnig stærra viðfangsefni hérlendis en gerist á hinum Norðurlöndunum. Ógnanir eða svívirðingar gagnvart starfsfólki skóla eru þó sjaldgæfar hér. Þá kemur einnig fram að íslenskir kennarar kalla eftir meiri þjálfun í kennslu fjöltyngdra nemenda og nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn. Hlutfall skóla með fjölbreytta nemendahópa er svipað á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum, en hérlendis telja kennarar og skólastjórar meiri þörf á slíkri þjálfun.