Samstarfsnefnd háskólastigsins á Íslandi, sem mynduð er af rektorum allra íslensku háskólanna, fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu. Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands.

Þar lýsir nefndin yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla sem og öllum íbúum landsins. „Íslenskir háskólar munu fylgjast náið með framvindu mála og bregðast við eftir því sem málin þróast,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að íslenskir háskólar muni huga sérstaklega að starfsfólki og nemendum sínum frá Úkraínu og Rússlandi, og þeim sem eiga þar skyldfólk og ástvini.