Inn­flutningur á kjöt­vörum og öðrum land­búnaðaraf­urðum hefur stór­aukist hér á landi á undan­förnum árum og vekur at­hygli að það eru ekki síst ís­lenskir kjöt­fram­leið­endur sem eiga þar hlut að máli, en þeir hafa oft og tíðum lagst gegn inn­flutningi af þessu tagi.

Þegar rýnt er í niður­stöður út­boða á toll­kvóta, sem Frétta­blaðið hefur undir höndum, sést að inn­flutningur inn­lendra bænda og af­urða­stöðva á bú­vörum hefur aukist veru­lega á síðustu árum og einkan­lega eftir að toll­kvótar sam­kvæmt samningi við Evrópu­sam­bandið voru stækkaðir 2019.

Þegar horft er til niður­stöðu síðasta út­boðs á toll­kvóta frá Evrópu­sam­bands­löndunum, sést að hlutur inn­lendra fram­leið­enda af inn­flutningnum nemur núna 90 prósentum í svína­kjöti, 43 prósentum í nauta­kjöti, 34 prósentum í ali­fuglum og 25 af hundraði í inn­flutningi á skinku.

Inn­lendir bú­vöru­fram­leið­endur hafa einnig stór­aukið inn­flutning á bú­vörum frá öðrum löndum og álfum á allra síðustu árum, sem í krafti út­boða fást á lægri tollum en ella. Í síðasta út­boði toll­kvóta sam­kvæmt WTO-samningnum hrepptu inn­lendir fram­leið­endur 81 prósent af kvóta fyrir kinda- og geita­kjöt, 68 prósent af nauta­kjöti, sömu prósentuna af eggjum, 48 prósent af ali­fugla­kjöti og 23 prósent af ostum.

Sér­staka at­hygli vekur að ó­líkt því sem áður var seldist allur toll­kvótinn fyrir inn­flutning á kinda­kjöti í út­boðinu og flytur fyrir­tækið Stjörnu­grís, stærsti svína­ræktandi landsins, inn 81 prósent af honum, eða sem nemur 280 tonnum.

Út­boðs­niður­stöðurnar sýna að inn­lendir kjöt­fram­leið­endur bjóða hátt í toll­kvóta fyrir inn­fluttar bú­vörur og eru sumir hverjir að verða í hópi um­svifa­mestu inn­flytj­enda á bú­vörum, en svo virðist sem þeir keyri á­fram hækkanir á út­boðs­gjaldi í sumum vöru­flokkum.

Vef sem varaði við útflutningi lokað

Flest þessara fyrir­tækja sem hér um ræðir, eða sam­tök þeirra, áttu aðild að vefnum oruggur­matur.is þar sem varað var við inn­flutningi á bú­vörum. Þar sagði meðal annars að „ó­hindraður inn­flutningur á kjöti, hráum eggjum, ostum og öðrum mjólkur­vörum rýfur verndina sem lega landsins og ís­lenskir bú­skapar­hættir veita okkur og skapar raun­veru­lega hættu fyrir al­menning.“

Vefnum hefur nú verið lokað.