Innflutningur á kjötvörum og öðrum landbúnaðarafurðum hefur stóraukist hér á landi á undanförnum árum og vekur athygli að það eru ekki síst íslenskir kjötframleiðendur sem eiga þar hlut að máli, en þeir hafa oft og tíðum lagst gegn innflutningi af þessu tagi.
Þegar rýnt er í niðurstöður útboða á tollkvóta, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, sést að innflutningur innlendra bænda og afurðastöðva á búvörum hefur aukist verulega á síðustu árum og einkanlega eftir að tollkvótar samkvæmt samningi við Evrópusambandið voru stækkaðir 2019.
Þegar horft er til niðurstöðu síðasta útboðs á tollkvóta frá Evrópusambandslöndunum, sést að hlutur innlendra framleiðenda af innflutningnum nemur núna 90 prósentum í svínakjöti, 43 prósentum í nautakjöti, 34 prósentum í alifuglum og 25 af hundraði í innflutningi á skinku.
Innlendir búvöruframleiðendur hafa einnig stóraukið innflutning á búvörum frá öðrum löndum og álfum á allra síðustu árum, sem í krafti útboða fást á lægri tollum en ella. Í síðasta útboði tollkvóta samkvæmt WTO-samningnum hrepptu innlendir framleiðendur 81 prósent af kvóta fyrir kinda- og geitakjöt, 68 prósent af nautakjöti, sömu prósentuna af eggjum, 48 prósent af alifuglakjöti og 23 prósent af ostum.
Sérstaka athygli vekur að ólíkt því sem áður var seldist allur tollkvótinn fyrir innflutning á kindakjöti í útboðinu og flytur fyrirtækið Stjörnugrís, stærsti svínaræktandi landsins, inn 81 prósent af honum, eða sem nemur 280 tonnum.
Útboðsniðurstöðurnar sýna að innlendir kjötframleiðendur bjóða hátt í tollkvóta fyrir innfluttar búvörur og eru sumir hverjir að verða í hópi umsvifamestu innflytjenda á búvörum, en svo virðist sem þeir keyri áfram hækkanir á útboðsgjaldi í sumum vöruflokkum.
Vef sem varaði við útflutningi lokað
Flest þessara fyrirtækja sem hér um ræðir, eða samtök þeirra, áttu aðild að vefnum oruggurmatur.is þar sem varað var við innflutningi á búvörum. Þar sagði meðal annars að „óhindraður innflutningur á kjöti, hráum eggjum, ostum og öðrum mjólkurvörum rýfur verndina sem lega landsins og íslenskir búskaparhættir veita okkur og skapar raunverulega hættu fyrir almenning.“
Vefnum hefur nú verið lokað.