Stjórn Samtaka arkitektastofa, SAMARK, gerir verulegar athugasemdir við ummæli Pawel Bartoszek, varaformanns skipulagsráðs Reykjavíkur í fréttum RÚV þar sem hann vonast til að ráðist verði í alþjóðlega arkitektasamkeppni um hönnun Sundabrúar sem er hluti lagningar Sundabrautar.

Meðal þess sem Pawel nefndi var alþjóðleg hönnunarsamkeppni sem væri nokkuð sem þyrfti að ræða við lagningu Sundabrautar um hábrú.

„Ummæli varaformanns skipulagsráðs Reykjavíkur lýsa viðhorfi sem hefur verið einkennandi hjá hinu opinbera hvað varðar hönnun á stórum verkefnum, þ.e. að eftirsóknarvert sé að leita út fyrir landsteinana. Samtök arkitektastofa vilja koma því skýrt til skila að íslenskir arkitektar eru fullfærir um að hanna mannvirki á borð við þetta. Hið opinbera ætti að kappkosta að upphefja íslenska hönnun með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið,“ segir í gagnrýni SAMARK.

Nýtt kennileiti

Samtök arkitektastofa hvetja til þess að vandað verði til verka þegar kemur að hönnun mannvirkisins og ekki síst þess landslags sem verður í kringum það. Mannvirki sem þetta mun breyta ásýnd borgarinnar og með því verður til nýtt kennileiti.

Samtök arkitektastofa telja allt of litlu varið í arkitektúr við uppbyggingu innviða hér á landi og að þörf sé á viðhorfsbreytingu þegar kemur að þeim virðisauka sem arkitektúr býr til í samfélaginu. Það felst virði í því að innviðir okkar séu hannaðir með þeim hætti að þeir samræmist umhverfinu, bæti ásýnd landsins og upplifun notenda.

Mikilvægi landslagsarkitektúrs

Vegagerðin ætti í mun ríkari mæli að leita til arkitekta og landslagsarkitekta við undirbúning og hönnun verkefna og benda Samtök arkitektastofa á að í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við hafa arkitektar mun meiri aðkomu að t.d. vega- og brúarhönnun. Mikilvægi landslagsarkitektúrs við hönnun innviða vegakerfisins ætti einnig að vera öllum ljós í þessu samhengi.