Pokémon-spjöld ganga kaupum og sölum fyrir háar fjárhæðir hér á landi og eru dæmi um að hægt sé að fá tugi þúsunda króna, og allt upp í 3,5 milljónir, fyrir stök spjöld. Pokémon-markaðurinn hefur verið á mikilli siglingu undanfarin misseri og má segja að svipuð lögmál gildi þar og á rafmyntamarkaðnum.
Í Glæsibæ reka nokkrir félagar litla verslun, PokeHöllina, sem er um margt forvitnileg verslun. Blaðamaður rakst á verslunina fyrir tilviljun á ferð sinni um Glæsibæ fyrir skemmstu og ákvað að kanna málið betur. Má segja að nýr heimur hafi hálfpartinn opnast enda sérstakt að lítil pappaspjöld með myndum af litríkum fígúrum geti verið jafn mikils virði og raunin er.
Stór markaður á Íslandi
„Ég er búinn að vera að selja Pokémon-spjöld frá árinu 2017. Þá fann ég gamla safnið mitt og var selja spjöld úr því til Bandaríkjanna og Evrópu,“ segir Gunnar Valur G. Hermannsson sem á verslunina ásamt Reyni Sigurvin Brynjólfssyni og Barða Páli Böðvarssyni. Hlynur Örn Ómarsson er einnig í eigendahópnum.
Gunnar stofnaði Facebook-hóp í október í fyrra og hóf þá að selja Pokémon-spjöld til íslenskra áhugamanna. „Þar kynntist ég Reyni og Barða og þeir voru alveg vitlausir í þetta eins og ég. Þeir vildu bara vera með og það var gaman að fá félaga með í þetta í staðinn fyrir að vera einn í þessu. Þeir eru líka með mikla þekkingu,“ segir Gunnar en úr varð að þeir opnuðu verslun í Glæsibæ þar sem þeir selja Pokémon-pakka og stök spjöld til viðskiptavina. Þá kaupa þeir einnig spjöld af viðskiptavinum.
Pokémon-fyrirbærið var skapað af Japananum Satoshi Tajiri árið 1995 og hefur í gegnum árin notið mikilla vinsælda í tölvuleikjaheiminum undir einkaumboði Nintendo. Sjónvarpsþættir, bækur og leikföng fylgdu í kjölfarið og svo títtnefnd Pokémon-spjöld sem njóta gríðarlegra vinsælda í dag. Í heimi Pokémon-spjaldanna gildir lögmálið um framboð og eftirspurn: eftir því sem minna er til af ákveðnum spjöldum þeim mun dýrari eru þau og eftirsóttari.
Algjör sprenging í Covid
Margir muna eflaust eftir Pokémon-æðinu sem var á Íslandi og víðar um og upp úr aldamótum. Þá sóttu einkum börn og ungmenni í Pokémon-spjöld en eins og oft vill verða dvínuðu vinsældirnar.
„Þetta datt aðeins niður árin 2003 til 2006. Settin á þeim tíma voru prentuð í litlu upplagi en þau eru mjög mikils virði í dag. Óopnaðir pakkar frá tíma eru með þeim dýrustu sem hægt er að fá enda lítið til af þeim,“ sagði Barði þegar blaðamaður kíkti í heimsókn í PokeHöllina á dögunum.
„Svo kom önnur dýfa niður 2010 til 2011 og það er örugglega ástæðan fyrir því að Pokémon ákvað að gera Pokémon Go árið 2016,“ segir Gunnar en Pokémon Go-tölvuleikurinn naut gríðarlegra vinsælda eins og margir muna eflaust eftir. Í kjölfar útgáfu leiksins kom önnur sprengja í vinsældir spilanna.
„Þá endurprentuðu þeir spilin frá 1999 og þá kikkaði nostalgían inn hjá mörgum. Frá árinu 2016 hefur þetta verið á uppleið og í byrjun Covid varð svo algjör sprenging,“ segir Gunnar. Markaðurinn hefur róast aðeins undanfarna mánuði og er það einkum vegna þess að það hægðist á prentun spjaldanna þegar faraldurinn náði hámarki. Nú hefur meiri stöðugleiki náðst og verðið lækkað samhliða því þó það sé enn mjög hátt í sögulegu samhengi.
Eiga sjálfir „hinn heilaga kaleik“
Reynir Sigurvin er í hópi eigenda en hann varð á sínum tíma fyrsti Pokémon-meistari Bandaríkjanna í kringum aldamótin þegar hann var barn. Spilin eru þannig úr garði gerð að hægt er að spila með þeim og hafa fígúrurnar mismunandi eiginleika og styrkleika sem gefnir eru til kynna á spjöldunum. Reynir var búsettur í Bandaríkjunum lengi vel sem barn og ferðaðist víða um suðurhluta Kaliforníu þar sem hann tók þátt í hinum ýmsu mótum. Reynir hefur sjálfur ekki spilað í mörg ár og er í dag aðeins safnari eins og Barði og Gunnar.
Eins og fyrr segir hefur markaðurinn tekið mikinn kipp í kjölfar Covid-faraldursins og þá hafa ýmsir áhrifavaldar haft sín áhrif á markaðinn. Reynir nefnir YouTube-stjörnuna Logan Paul í þessu samhengi en milljónir manna fylgjast með myndböndum hans í hverri viku. „Hann var að opna svokallaða „First edition base“-pakka á YouTube og þá jókst eftirspurnin. Hann var líka að ná til margra sem voru ekki í Pokémon áður, þar á meðal frægir einstaklingar eins og Justin Bieber,“ segir Reynir sem dregur fram það sem hann kallar hinn heilaga kaleik Pokémon-spjaldanna.
„Þetta spil var 50 þúsund dollara virði í febrúar,“ segir Reynir en 50 þúsund dollarar jafngilda 6,3 milljónum króna á núverandi gengi. Nú, rúmu hálfu ári síðar, er markaðsvirði spilsins um 25 þúsund dollarar, eða rúmar þrjár milljónir króna.
Spilið sem um ræðir er með fígúrunni Charizard framan á og er úr fyrstu útgáfu spjalda sem komu út árið 1999. Spilið er í góðu standi og með einkunnina 9 frá fyrirtækinu Beckett sem gefur spilum einkunn eftir ástandi þeirra. Reynir segist telja að aðeins 117 slík spjöld séu til í heiminum. „Þetta spil er kóngurinn á markaðnum. Þegar Logan Paul byrjaði að reyna að draga þetta spil úr óopnuðum pökkum þá fór markaðurinn upp,“ segir hann.

Þrjár týpur viðskiptavina
Viðskiptavinir PokeHallarinnar eru á öllum aldri, ungir sem aldnir, en aðspurður segir Barði að flestir séu að kaupa til að safna. „Þetta eru kannski þrennskonar týpur af fólki sem koma hérna inn. Þeir sem koma hérna inn til að fjárfesta, þeir sem hafa einfaldlega gaman af því að opna þetta og safna ákveðnum spjöldum og svo þeir sem eru að spila þetta. En tilfinningin sem flestir eru að sækjast eftir er að kaupa þetta, opna staka pakka og fá spilið sem verið er að leitast eftir,“ segir hann.
Spilin ganga kaupum og sölum fyrir stórar fjárhæðir og segir Gunnar Valur að hæsta einstaka salan var spil sem kostaði 100 þúsund krónur. „Við keyptum það af einum og svo seldum við það tveimur dögum síðar,“ segir hann. Í versluninni eru einnig mikið dýrari spjöld sem eru þó ekki endilega öll til sölu.
„Það gæti orðið erfitt að sjá á eftir sumum spilum, en hvað gerir maður ekki fyrir kúnnann?,“ segir Gunnar og hlær. „Það er líka gaman að hafa eitthvað flott til að sýna. Það finnst mörgum gaman að koma og halda á og snerta,“ bætir Reynir við. Stöku spilin njóta töluverðra vinsælda í versluninni en það eru spil sem hafa verið dregin úr pökkum og eru verðmætari en gengur og gerist. Verðmæti þeirra er þó mjög misjafnt, allt frá nokkur hundruð krónum, upp í tugi og jafnvel hundruð þúsunda. Þau allra dýrustu og sjaldgæfustu geta svo kostað nokkrar milljónir króna.
Reynir segir að það séu þó ekki allir hrifnir af því að kaupa stök spil. Tilfinningin sem fylgir því að opna pakka og fá spilið sem maður er að leita að trompi allt saman. „Sumum er alveg sama þó það kosti meira að kaupa endalausa pakka. Sumir vilja bara draga spilin,“ segir Reynir. Gunnar tekur undir að tilfinningin sem fylgir því sé góð og um þriðjungur veltunnar sé í formi stakra spila sem verslunin selur.
399 krónur verða að 50-60 þúsund krónum
Verslunin selur ekki eingöngu nýjustu spilin því þar er einnig að finna gamla óopnaða pakka sem eru nokkuð verðmætir og hafa hingað til aðeins verið fáanlegir á uppboðsvefjum á borð við eBay. Þetta eru til dæmis pakkar sem seldir voru í verslunum á borð við BT og Pennann í kringum aldamótin og kostuðu 399 krónur. Virði slíkra pakka í dag er í kringum 50-60 þúsund krónur.
Aðspurðir hvort margir slíkir pakkar séu til í heiminum segir Barði að það sé til slatti. „En í hvert skipti sem einhver kaupir svona box og opnar þá hækkar markaðurinn því þá er einu boxi færra. Meðan fólk er enn að opna er bara tímaspursmál hvenær allt er búið. Og ef ákveðið spjald kemur ekki úr þessum pökkum þá hækkar verðið á því.“
Barði segir að á netinu megi finna einskonar verðskrá fyrir hvert og eitt einasta Pokémon-spil sem hefur komið út. „Hvert og eitt spil er eins og skráð hlutabréf í Kauphöllinni. Það getur sveiflast upp og niður innan dagsins,“ segir hann. Heildarmarkaðsvirði Pokémon-spilanna er um 500 milljónir dollara í dag en fór hæst í um milljarð dollara fyrr á þessu ári. „Það var rosalegt hvað maður seldi spilin sín á þá,“ segir Gunnar.

Gullmolar í gömlum söfnum
Til eru mörg dæmi um það að íslenskir viðskiptavinir PokeHallarinnar hafi komið með gömlu söfnin sín sem legið hafa lengi í geymslu.
„Já, það er alltaf að gerast og það er skemmtilegast. Það kemur fyrir að þar leynist gullmolar. En það versta er að fólk var ekkert alltaf að spá mikið í ástandinu á spjöldunum og sum eru ekki í góðu ástandi. Það eru líka margir sem koma hingað inn og tala um að mamma þeirra hafi jafnvel hent safninu og verðmætum spjöldum. Við heyrum það mjög oft,“ segir Gunnar sem bætir við að mánuði áður en þeir félagar opnuðu PokeHöllina hafi þeir haft samband við Sorpu til að kanna hvort þar gætu leynst gömul Pokemon-spjöld.
„Þá voru þeir nýbúnir að pressa 427 kíló af spjöldum. Næstum hálft tonn. Þá höfðu þeir safnað þessu saman og pressað þetta. Þarna voru eflaust einhverjar milljónir,“ segir Gunnar.
PokeHöllin er þegar farin að huga að því að færa út kvíarnar og fara að selja íþróttaspil allskonar.
„Körfuboltaspil, fótboltaspil og NFL,“ segir Reynir og bætir við að þeir hafi allir verið í íþróttum áður og þekki þann markað vel. „Íþróttaspjöldin eru í raun miklu stærri og dýrari. Markaðurinn þar hefur gengið meira af göflunum en Pokémon-heimurinn. Fólk hefur verið að missa vitið þegar nýjustu spjöldin hafa verið að koma út,“ segir Barði en margir muna eflaust eftir gömlu NBA-myndunum og fótboltaspjöldunum sem nutu vinsælda í gamla daga.
Mikið um fölsuð spil í umferð
Barði vill minnast sérstaklega á eitt en það varðar Pokémon-spjöld sem eru fölsuð, en þau virðast vera í umferð hér á landi í þó nokkru magni.
„Það eru margir krakkar sem koma til okkar með möppur sem eru stútfullar af feik-spjöldum. Þá eru þau að fá þetta hjá öðrum eða þriðja aðila og hafa verið að fá þau í skiptum fyrir jafnvel alvöru spjöld,“ segir hann. Gunnar segist gruna að foreldrar séu að kaupa þau í gegnum Aliexpress eða Amazon og viti hreinlega ekki betur. „Heill kassi af alvöru Pokémon-spjöldum kostar ekki tvö þúsund krónur. Hann kostar miklu meira.“
Reynir segir að þeir félagar reyni að fræða börnin sem koma í búðina og hvetja þau til að fara varlega þegar kemur að því að skiptast á spilum. „Við hvetjum þau til að vera ekkert endilega að skipta spilunum sínum. Það eru margir með fölsuð spil og krakkar eru kannski að skipta alvöru spjöldum fyrir þau. Það er mjög leiðinlegt að komast að því að þú hafir fengið falsað spil. Við viljum fræða fólk um þetta hobbí og kenna því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.“
Verðið hækkar með tímanum
Aðspurðir hvort enn sé gróðavon fyrir þá sem eru að hugsa um að fara út í það að safna spilum, segja þeir að hún virðist enn vera til staðar. „Maður er til dæmis að sjá sett frá 2017, pakkar frá þeim tíma eru komnir í 5-6.000 krónur pakkinn og ákveðin spil úr þeim upp í alveg 500 dollara,“ segir Barði og bætir við að allt saman fari þetta þó eftir framboði og eftirspurn og gæðum prentunarinnar og sjálfra spilanna. Sum settin séu framleidd í miklu magni og því verði þau sennilega ekki eins verðmæt og önnur.
Þeir félagar eru að sjálfsögðu sjálfir grimmir safnarar enda eru spjöldin sem þeir selja úr búðinni úr sameinuðu safni þeirra. „Þegar við byrjuðum sameinuðum við söfnin okkar. Fórum bara með þau beint í búðina og keyrðum þetta af stað. Í byrjun höfum við örugglega verið með 200 til 300 þúsund spjöld og við erum með stóran lager af spjöldum sem við eigum eftir að fara í gegnum. Þetta er bara brotabrot sem við erum búnir að selja,“ segir Gunnar að lokum.