Sýningin fjallar um náttúrufyrirbrigðið þoku sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, lítið annað en sveimur örsmárra vatnsdropa, ský sem liggur við jörðu.

Þokuvísindafólkið Hulda og Karlsson eru komin á vettvang með mælitæki sín til að leita ofursjaldgæfrar þoku. Verkefni þeirra reynist þó allt annað en einfalt því margt býr í þokunni og í bland við fræðslu um þetta magnaða veðurfyrirbæri opnast ævintýra- og þjóðsagnaheimur á sviðinu.

Þórshafnarþokan innblástur


Aðalbjörg Árnadóttir leikstýrir verkinu og er jafnframt einn höfunda en hugmyndin kom upp fyrir nokkrum árum þegar hún tók þátt í samnorrænu verkefni í Þórshöfn, Færeyjum.

„Einn daginn fór ég út að labba í svartaþoku. Skyndilega heyrðust skringileg hljóð og glitta sást í eitthvað rautt sem hreyfðist upp og niður. Þegar ég kom nær sá ég að þetta voru börn að hoppa og þau kipptu sér ekkert upp við kolniðamyrkrið. Mér fannst þetta svo áhugavert.

Sömu sjón sá ég svo aftur um sumarmorgun á Patreksfirði þar sem börn á leikskólalóð kipptu sér ekkert upp við kalda, daglega morguninnlögnina. Í kjölfarið fór ég að grúska í gömlum færeyskum þokunöfnum og varð alveg heilluð.“

Aðalbjörg á sjálf dóttur á fimmta ári og langaði að búa til leikhús fyrir hana. „Hún vill að ég komi því á framfæri að þetta eru hennar hendur sem halda á krukkunni á kynningarmyndinni,“ segir Aðalbjörg í léttum tón.

Aðalbjörg Árnadóttir fékk hugmyndina að verkinu í svartaþoku í Þórshöfn, Færeyjum. Mynd/aðsend

Ein besta leikkona í heimi


Í Færeyjum eignaðist Aðalbjörg góða vini og upphaflega ætlaði færeysk vinkona hennar að leika í verkinu, en það gekk ekki upp.

„Þá voru góð ráð dýr, ég var komin af stað í framleiðsluferli og búin að missa færeysku leikkonuna mína. Hvernig reddar maður sér færeyskri leikkonu?“ spyr hún sjálfa sig.

„Ég vissi alveg af Gunnvá,“ segir hún og á þá við Gunnvá Zachariasen sem leikur í sýningunni á móti Hilmari Jenssyni. „En ég bara þorði ekki að biðja hana að vera með. Ég hafði leikið með henni eitt kvöld í Kaupmannahöfn og Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona hefur talað um hana sem eina bestu leikkonu í heimi,“ segir Aðalbjörg sem þó byggði upp kjark og þær áttu að hennar sögn frábæran fyrsta símafund þar sem Aðalbjörg var uppi á Melrakkasléttu og Gunnvá út í Suðurey.

Þokuvísindafólkið Hulda og Karlsson mæta á vettvang með mælitæki sín að leita sjaldgæfrar þoku. Mynd/aðsend

Kóngsdóttir í álögum


Sýningin er bæði á íslensku og færeysku en Aðalbjörg segir að stundum hafi þurft að grípa í ensku eða dönsku í æfingaferlingu.

„Í verkinu búum við líka til okkar eigið tungumál, orð eins þokuposafella eða þokupokagildra.“

Í verkinu mæta vísindin ævintýrum og safnaði Aðalbjörg sögum og vísum tengdum þokunni.

„Eina hafði ég aldrei heyrt, en það er sagan um að þokan sé kóngsdóttir í álögum. Austfirðingar kannast margir við þessa sögu, en ég hef hana frá tengdamömmu minn sem er frá Borgarfirði eystra,“ segir Aðalbjörg.

„Eina hafði ég aldrei heyrt, en það er sagan um að þokan sé kóngsdóttir í álögum."

„Svo skoðuðum við sögur um krumma og hunda sem hjálpa fólki gegnum þoku og um Nykurinn sem er stórt þjóðsagnaminni bæði hér og í Færeyjum,“ segir hún og tekur fram að hún hefði ekki viljað vera án ljósameistarans Ólafs Ágústs Stefánssonar.

„Og það sama má auðvitað segja um alla hina,“ segir hún og bætir við: „Þetta er okkar þoka. Ofursjaldsöm íslensk/færeysk þoka,“ slettir Aðalbjörg í lokin en sjaldsöm þýðir auðvitað sjaldgæf.