Heitar um­ræður standa nú yfir meðal ís­lenskra mæðra um vin­sældir hinna of­beldis­fullu Squ­id Game þátta og fyrir­spurna barna þeirra um búninga tengda þættinum. Um­ræðurnar er meðal annars að finna á Face­book hópnum Mæðra­tips. Partý­búðin hefur ekki sett slíka búninga í sölu en for­svars­menn hennar segja að eftir­spurnin sé gríðar­leg. Nóg er í boði á AliExpress handa krökkum. Skólastjórnendur eru áhyggjufullir.

Suður-kóresku þættirnir hafa farið sigur­för um heiminn og eru lang­vin­sælustu þættir sem Net­flix streymis­veitan hefur gefið út. Þeir eru hins­vegar gríðar­lega of­beldis­fullir og efnis­tök þeirra eingöngu ætluð þeim sem eru orðnir eldri en 16 ára.

„Með því ó­geð­felldara sem ég hef séð“

„Getum við að­eins talað um of­beldis­menningu og getur ein­hver út­skýrt fyrir mér þetta Squ­id­game dæmi og af hverju mæður eru æstar í að fá Squ­id­game búninga fyrir börnin sín?“ spyr móðir inni á Face­book hópnum.

„Mér fannst þessir þættir á­huga­verðir út frá hug­mynda­fræði um mann­legt eðli, græðgi og völd, en með því ó­geð­felldara sem ég hef séð og myndi aldrei leyfa börnunum mínum að horfa á þá, enda bannaðir innan 16,“ skrifar hún.

Þættirnir eru gríðarlega ofbeldisfullir og blóðugir. Mæður og skólastjórnendur hafa miklar áhyggjur.
Mynd/Netflix

„Samt er ég að heyra um börn niður í þriðja bekk sem eru búin að horfa á þá og frí­mínútur í þriðja bekk eru hert­eknar af squ­id­ga­mes leikjum. Er fólk æst í að ala upp sið­blinda morðingja, eða hvað er málið? Eru það heila­sletturnar sem heilla, eða kannski frá­bært fram­tíðar­at­vinnu­tæki­færi í að ræna líf­færum? Ég bara skil þetta engan veginn. Er ég ó­hóf­lega við­kvæm?“

Mikil eftirspurn og nóg í boði á netverslunum

Frétta­blaðið heyrði í Partý­búðinni vegna málsins. Þar eru búningar tengdir þessum þáttum ekki til sölu. Þau svör bárust hins­vegar að eftir­spurn eftir búningunum og þá sér­stak­lega handa börnum væri gífur­leg.

Á kín­versku net­versluninni AliExpress má finna slíka búninga til sölu og í tuga­tali. Þá er hægt að kaupa grímur þar sér, sem og hlaupa­galla.

Þar eru svo búningar úr þáttunum sem sér­stak­lega eru hannaðir handa krökkum. Er meðal annars hægt að kaupa dúkku­búning, sem er alveg eins og dúkka úr fyrstu þrautinni í þáttunum.

Það er nóg í boði af Squid Game krakkabúningum hjá kínverska netrisanum.
Fréttablaðið/Skjáskot

Skólastjórnendur áhyggjufullir

Skólastjórn Urriðaholtsskóla hefur orðið var við umtal meðal barna allt niðri í 1. bekk um ofbeldisfullu þættina. Una Guðrún Einarsdóttir, aðstoðarskólastjóri, sendi foreldrum nemenda í skólanum tölvupóst í morgun vegna málsins.

„Sæl kæru foreldrar! Við erum æ oftar að heyra umræður barna á öllum aldri um sjónvarpsþáttinn Squid Game á Netflix og oftar en ekki í samhengi við ósætti á milli barna,“ skrifar Una í pósti til foreldra í 1.-7. bekk.

Hún bendir á að um sé að ræða sjónvarpsefni sem inniheldur gróft ofbeldi og sjálfsvíg. „Við vildum láta ykkur vita til þess að þið gætuð haft augu og eyru hjá ykkar börnum þegar verð er að velja efni til að horfa á.“

Horfa má á stiklu úr þáttunum hér að neðan: