Móðir sem fór með dóttur sína í skurðaðgerð á höfði til Helsinki festist á flugvallarhóteli þar sem fluginu þeirra heim til Íslands var aflýst vegna óveðurs. Engin frá Icelandair setti sig í samband við mæðgurnar, sem komast vonandi heim á morgun í tæka tíð fyrir saumatöku á Íslandi.
„Við fórum til Helsinki vegna þess að dóttir mín þurfti að fara í aðgerð sem var ekki hægt að framkvæma á Íslandi. Hún fékk að fara út af spítalanum því við áttum flug heim nítjánda desember, sem er síðan frestað vegna veðurs,“ segir Guðrún Hulda Fossdal, sem er föst á hótelherbergi í Helsinki ásamt móður sinni og dóttur.
„Fluginu okkar var svo frestað aftur í gær og ég fæ þær upplýsingar að næsta flug til Íslands sé fullbókað,“ segir Guðrún, en þær mæðgur ásamt stórum hóp af Íslendingum eru strandaglópar í Finnlandi nokkrum dögum fyrir jól.
„Það er engin leið að ná í Icelandair. Þeir svara ekki í gegnum netspjallið og við fáum bara símsvarann ef við reynum að hringja,“ segir Guðrún.
„Mér finnst mjög slæmt að þegar það er einstaklingur sem er að koma úr stórri skurðaðgerð að það sé ekki reynt að bóka mann með einhverju öðru flugfélagi í stað þess að láta okkur bíða og vita ekki neitt,“ segir Guðrún.
Eins og fyrr segir eru Guðrún, dóttir hennar og móðir á hóteli í Helsinki. Hún býst við að Icelandair endurgreiði þeim fyrir hótelgistinguna, en segir að allt sé svo óskýrt að hún í raun viti það ekki.
„Dóttur minni líður ekki vel hérna, hún vill komast heim til sín í sitt umhverfi. Hún átti að fara í saumatöku á Íslandi á morgun. Einnig er óvissa með lyfin sem hún þarf að fá í kjölfar aðgerðarinnar. Við getum leyst þau út heima á Íslandi en það er allt komið í rugl núna. Ef við fáum ekki flug í dag þarf ég að fara að hringja í læknana sem skáru hana upp og athuga hvort þeir geti útvegað saumatökutíma í Helsinki,“ segir Guðrún.
Komast vonandi heim á morgun
Í kjölfar samtals mæðgnana við Fréttablaðið í morgun fengu þær loksins góðar fréttir. Nú eiga þær sæti með flugfélaginu Finnair til Kaupmannahafnar og þaðan með Icelandair til Íslands. Guðrún segir þó að það sé enn stór hópur Íslendinga sem vita ekki hvernig þau eiga ferðast heim.
„Þessi hópur hefur ekki náð sambandi við neinn. Þau fóru út á flugvöll til að reyna fá upplýsingar þar, en ég mun láta þau vita hvaða leið við erum að fara,“ segir hún.
Guðrún vonast til þess að aðrir Íslendingar sem eru fastir erlendir láti í sér heyra. „Ég vona að þeir sem eru í sömu stöðu og við hafi hátt og láti vita af sér,“ segir hún.