„Þetta rímar mjög vel við mínar niðurstöður. Hún er að skoða akademíska starfsmenn og hvernig þetta akademíska framgangskerfi er, hindranirnar í því og starfsumhverfi háskólanna,“ segir Maya Staub, doktor í félagsvísindum, um niðurstöður nýrrar skýrslu sem Salome Steinþórsdóttir nýdoktor vann fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að litlar breytingar hafi orðið síðustu fimm ár á stöðu kynjajafnréttis þegar kemur að framgangi akademískra starfsmanna háskóla.

Maya varði doktorsritgerð sína fyrir skömmu, Starfsferilsþróun doktorsmenntaðra: Rannsókn á kynjuðu samhengi fjölskyldulífs og tekna meðal doktorsmenntaðra á Íslandi. Niðurstöður rannsókna Mayu herma að konur með doktorspróf á Íslandi séu með laun á pari við karla með BA-próf.

„Launamunur doktorsmenntaðra í Íslandi er til staðar óháð prófsviði og starfsvettvangi. Hann er að finna hvort sem er innan hug-og félagsvísinda eða raunvísinda og einnig bæði innan akademíu og á hinum almenna vinnumarkaði,“ segir Maya.

Rannsóknir Mayu beinast meðal annars að því hvernig fjölskyldulífið blandast inn í starfið hjá fólki með doktorspróf.

„Þannig að ég er bæði með fólk sem er að vinna innan háskólanna, akademíska starfsmenn, svo er ég líka með hina doktorsmenntuðu starfsmennina sem eru að vinna á almennum vinnumarkaði,“ segir hún.

„Konur eru lengur að verða prófessorar. Það eru mun fleiri karlar í þessum prófessorastöðum, en það eru fleiri lektorar og aðjúnktar, en það eru lægri stöðugildin,“ segir Maya.

Hún bendir einnig á launamun. „Ég sé launamun meðal doktorsmenntaðra bæði innan og utan akademíu, óháð prófsviði. Bæði innan og utan félagsvísindanna.“

Maya segir að í störfum sem eru álitin hefðbundin karlastörf, sem fela í sér hugmyndir um til dæmis hverjir eru góðir í stærðfræði, sé það oft tengt karlmennskuhugmyndum.

„Í þeim geirum er launamunur hærri, en þar sem konur eru fleiri,“ segir hún.

Hún bendir á að þannig sé meiri munur í raunvísindunum en í félagsvísindunum. „En hann er samt til staðar hjá félagsvísindafólki.“

Að sögn Mayu eru heimilisstörf meðal þátta sem einnig komi við sögu. „Tími kvenna er miklu sundurslitnari og þær eru miklu stressaðri og með meira samviskubit yfir því þegar þær eru ekki heima,“ segir hún. „Það er mjög skýrt í mínum gögnum.“