Ey­þór Gunnars­son, hljóm­sveitar­með­limur Mezzo­forte, hvetur tón­listar­menn um allan heim, í Face­book færslu, til að sam­einast í stuðningi við Jóhann Helga­son í máli tón­listar­risanna Uni­ver­sal og Warner gegn Jóhanni.

Þar lætur Ey­þór jafn­framt fylgja með mynd­band sem hann hefur sjálfur klippt, þar sem hann ber saman lögin tvö, „Söknuð“ eftir Jóhann sem hann samdi árið 1977 og „You raise me up“ eftir Rolf Lövland frá árinu 2002. Myndbandið má sjá og heyra neðst í fréttinni.

Í Face­book færslunni rekur Ey­þór sögu málsins í grófum dráttum og mála­ferli Jóhanns gegn út­gáfu­risunum, sem Frétta­blaðið hefur í­trekað greint frá. Félögin krefja Jóhann nú um greiðslur á málskostnaði.

„Þjófnaðurinn er svo aug­ljós að mann svíður í eyrun. Ég setti saman þetta stutta tón­dæmi þar sem ég hægði Söknuð niður og lækkaði um heil­tón svo það gæti hljómað við hlið stolna lagsins. Hlustið og dæmið sjálf,“ skrifar Ey­þór.

Hann segir út­gáfurisana nú verjast með alls kyns út­úr­snúningum og laga­klækjum og kallar hann eftir því í enskri út­gáfu færslu sinnar, að kallað sé eftir al­þjóð­legum stuðningi við Jóhann.

Fjöldinn allur af tón­listar­mönnum tjáir sig við færsluna. Þar á meðal eru Björg­vin Hall­dórs­son, Pálmi Gunnars­son, Einar Ágúst Víðis­son, Jakob Frí­mann Magnús­son og Bubbi Morthens. Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur Björg­vin áður sagt að til greina komi að efna til styrktar­tón­leika handa Jóhanni.

„Stöndum saman með Jóa. Þetta er auð­vitað klárt...Hlustið bara,“ skrifar Björg­vin. „Skelfi­legt mál og rang­læti. And­skotinn segi ég nú bara. Ó­þolandi er ‘rétt­læti mannana’ svo allt­of oft,“ skrifar Einar Ágúst.

Jakob Frí­mann Magnús­son skrifar um­mæli á ensku og segir málið skan­dal. Hann kallar eftir stuðningi meðal tón­listar­manna á Norður­löndum og skrifar á ein­faldri skandínavísku: „Svona gerir maður ekki!“