Claudie Ashone Wilson héraðsdómslögmaður starfar hjá lögmannsstofunni Rétti. Hún flutti til Íslands árið 2001 frá Jamaíku og var fyrsti einstaklingurinn utan Evrópu til að öðlast réttindi sem héraðsdómslögmaður hér á landi. Claudie er einn af viðmælendum í pallborðsumræðunum„Hennar rödd“ sem fer fram á Kex hostel í kvöld.Fréttablaðið fjallaði um viðburðinn á laugardaginn en hann er skipulagður af þeim Chanel Björk Sturludóttur og Elínborgu Kolbeinsdóttur, sem viðburðurinn hefur það að leiðarljósi að gefa konum af erlendum uppruna tækifæri til að deila upplifun sinni af íslensku samfélagi.  Fréttablaðið ræddi við Claudie í tilefni viðburðarins en hún hefur meðal annars verið virk í Samtökum kvenna af erlendum uppruna(W.O.M.E.N in Iceland) og þekkir vel til þessa reynsluheims. 

Áhugi á mannréttindamálum kviknaði í gegnum W.O.M.E.N

Sem fyrr segir kom Claudie fyrst hingað til lands árið 2001. Hún hefur starfað sem lögfræðingur hjá Rétti frá því árið 2013 og hlaut lögmannsréttindi árið 2016. Aðspurð segist hún alltaf hafa stefnt að því að læra lögfræði, en áhugi hennar á mannréttindamálum hafi kviknað síðar.

„Kveikjan að því hvaða svið ég myndi að lokum velja í lögfræðinni kviknaði árið 2011 þegar ég fór í gegnum skilnað. Þetta var náttúrulega erfið lífsreynsla og ég hugsaði að þetta hlyti líka að vera erfitt fyrir konur sem eru í sambærilegri stöðu og ég var. Svo fór ég að skoða í kring um mig og rak augun í Samtök kvenna af erlendum uppruna,“ segir Claudie í samtali við Fréttablaðið. „Ég nýtti aðstoð þeirra og lærði mjög margt. Þaðan kviknaði svo áhuginn á mannréttindamálum, hvað varðar konur af erlendum uppruna.“

Metoo afhjúpandi

Aðspurð segir Claudie réttindabaráttu kvenna af erlendum uppruna hér á landi hafa náð langt en þó sé enn margt ógert. Metoo hafi afhjúpað mjög margt sem var í ólagi og í krafti þeirrar samstöðun sem myndaðist í kjölfar umræðunnar.

„Ég tel að Metoo hafi afhjúpað margt sem var óvitað og undirliggjandi, sem kom í kjölfarið fram í sviðljósið. Með afhjúpun þessara kvenna af erlendum uppruna, sem stigu fram og sögðu sínar sögur og lífsreynslu. Að það hafi verið mikil vitundarvakning, ekki bara fyrir konur af erlendum uppruna heldur líka fyrir samfélagið í heild sinni,“ segir Claudie.

Segir hún Metoo-afhjúpunina ekki einungis leitt í ljós ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna heldur einnig hversu gróft ofbeldið var og að konurnar yrðu fyrir því bæði á atvinnumarkaði sem og innan heimilisins.

„En ekki síst hvernig konur upplifuðu sig ráðlausar og bjargarlausar því þeim fannst eins og það væri enga aðstoð að fá frá yfirvöldum. Það er kannski það sem helst situr upp úr er að þetta er fjölþætt vandamál sem þarf að uppræta og leysa. Það hafi ýmislegt gert af hálfu stjórnvalda í kjölfar frásagnanna og að sjálfsögðu líka af hálfu sjálfra kvennanna, sem voru margar hverjar ófeimnar að tjá sig í fyrsta skipti,“ segir hún og heldur áfram: 

„Í þessari samstöðu fundu þær stuðning frá innfæddum konum og frá öðrum konum af erlendum uppruna. Það var þessi mikla samstaða sem gaf konunum mikið hugrekki og þær urðu ófeimnar að krefjast úrbóta.“

Snýst ekki bara um að innleiða lög og samninga

Claudie bendir á að þrátt fyrir að ýmsar breytingar í lagalegum skilningi hafi orðið síðustu árin, hvað varðar réttindi kvenna af erlendum uppruna megi alltaf gera betur. Bendir hún á að Istanbúl-samningurinn svokallaði hafi verið innleiddur á síðasta ári, en hann var samþykktur árið 2011. 

Samningurinn snýst um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi og er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Þá bendir hún á Reykjavíkurborg hafi unnið að aðgerðaráætlun í tengslum við jafna meðferð óháð kynþætti.

„Þetta eru skref í rétta átt, en með engu móti nóg til þess að tryggja að konur af erlendum uppruna, sem oftast eru í viðkvæmri stöðu, fái þá vernd sem þær þurfa hér. Þetta snýst ekki bara um að við innleiðum lög eða samninga það þarf líka að sýna fram á þetta með framkvæmd. Eins og staðan er nú eru allskonar hindranir sem standa í vegi fyrir innflytjendum og konum af erlendum uppruna að ná sínum hæstu möguleikum í samfélaginu.“

„Helvíti ertu dugleg að fara að skúra svona snemma“

Claudie flutti hingað til lands, sem fyrr segir árið 2001, og lagði upp í laganám nokkrum árum seinna. Laganám er ekkert grín og aðspurð hvort hún telji kunnáttu vera ákveðinn lykil að samfélagi og hvort á sama tíma séu raddir þeirra kvenna sem ekki hafa beislað tungumálið, fremur þaggaðar segir hún það vera svo að hluta til. Íslenskan sé þó aldrei ein og sér lykillinn að samfélaginu heldur sé það margþætt.

„Ég held að tungumálið sé stór hluti af því að vera virkur meðlimur í samfélaginu því þar hefur þú tök á því að tjá þig, koma skoðunum þínum á framfæri og gera kröfur. Ég segi samt ekki að þetta sé lykillinn að samfélaginu því ég hef sjálf séð að þetta stoppar ekki fordóma,“ segir hún.

„Ég finn þetta af og til, til að mynda tók ég leigubíl snemma morguns um daginn og ræddi við leigubílstjórann. Hann sagði við mig, helvíti ertu dugleg að fara að skúra svona snemma á morgnana, og ég sagði honum að ég væri lögmaður, hann sagði ekki meira. Þetta gerðist þegar fólk er með fordóma og með fyrirfram ákveðið staðalímynd um hlutverk kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagið. Þarna vorum við að eiga samtal á íslensku en hann var búinn að ákveða að ég væri skúringakona því ég var að fara snemma í vinnuna. Íslenskan getur aldrei verið ein og sér lykill að samfélaginu.“

Konur í ofbeldissamböndum í erfiðri stöðu

Aðspurð segir hún þó að hún hafi fundið fyrir því að þær konur sem ekki hafa íslenskuna finnist þær oft bjargarlausar og tekur sem dæmi konur af erlendum uppruna sem hafa sætt ofbeldi í hjónaböndum sínum en dvelja hér á grundvelli þess að þær séu makar Íslendings. 

„Þegar þær vilja komast úr sambandinu hafa makarnir tilhneigingu til þess að upplýsa stjórnvöld og þá er dvalarleyfi þeirra afturkallað um hæl. Þetta er mjög slæmt því það gerir það að verkum að þær halda áfram að vera í slæmu hjónabandi því það hefur áhrif á stöðu þeirra hér á landi.“

Að sögn Claudie er þó ákvæði í Útlendingalögum sem á að tryggja konum sem lenda í þessari stöðu ákveðin réttindi. Sönnunarbyrði kvennanna sé þó töluvert meiri en þeirra sem hafa dvalarleyfi eða önnur réttindi hér á landi og oft sé erfitt að sanna ofbeldi í samböndum, til að mynda ef það er andlegt og konur leita ekki til sálfræðings eða aðstoðar. 

„Ég hef séð kröfur um allskonar sannanir og konur settar í mjög alvarlega stöðu til að sanna ofbeldið, til dæmis með áverkavottun og þá er allt í einu komin staðan, ef ég hef ekki verið barin og marin þá er þetta ekki nóg til að ég fái að vera hérna áfram. Þetta er mjög hættulegt að settar sé háar þröskuldar um sönnun á ofbeldi og ef að við ætlum að vernda konur sem koma hingað þá verðum við að skoða útlendingalöggjöfina með tilliti til þessa.“

Gott aðgengi að vinnumarkaði en síður störf við hæfi

Í nýlegri skýrslu frá Hagstofu Íslands um félagslega velferð innflytjenda kemur meðal annars fram að hlutfall innflytjenda hér á landi hafi aldrei verið hærri, eða um 12.6 prósent. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að innflytjendur hafi gott aðgengi á íslenskum vinnumarkaði en mæti hindrunum þegar kemur að því að sækja sér menntun og fái síður störf við starfi.

Sjá einnig: Innflytjendur vinna meira og búa þrengra

„Ég leyfi mér að fullyrða að margar konum af erlendum uppruna hér á landi eru menntaðar, bæði hafa þær menntun aflað hérlendis og erlendis en þær fá ekki viðurkennd. Að sjálfsögðu hefur það áhrif á að þær fái tekjur og atvinnu við hæfi. Við þurfum að meðhöndla þetta vandamál, og sjá hag í því að nýta þekkingu og reynslu þeirra, í þessu er mikilvæg mannauð, sem er ekki nýttur því það eru hindranir sem standi í vegi fyrir þeim.“

Kröfur gerðar um íslensku í störfum 

Bendir hún á að innflytjendur sem séu háðir atvinnurekendum sínum séu ólíklegir til að krefjast réttinda sinna. Þá séu þeir líklegri til að þekkja þau ekki og hræðsla við að missa atvinnu og í kjölfarið dvalarleyfi hér á landi verði til þess að innflytjendur leiti ekki réttar síns. 

Þá getur verið að fólk tali ekki íslensku, eða hafi ekki náð nægilegum tökum á tungumálinu og fái því ekki störf við hæfi. „Svo kemur það fyrir að gerðar eru kröfur um íslensku kunnáttu til að starfa við fagsvið þar sem ekki er nauðsynlegt að tala íslensku í starfi,“ segir hún og bendir á pólskan sálfræðing sem sótti um réttindi til að sinna starfinu hér á landi fyrir nokkrum árum. Var henni synjað um leyfi til að starfa sem sálfræðingur á þeim grundvelli þess að hún talaði ekki nægilega góða íslensku, en hún vildi hins vegar aðstoða Pólverja í starfi sínu. „Það var samt gerð krafa um íslensku og þar kemur spurningin er þetta réttmæt krafa eða er þetta hindrun?“

Í því samhengi bendir Claudie á að nú standi yfir rannsókn sem Réttur lögmannsstofan, sem Claudie starfar hjá, og styrkt af sjóði um málefni innflytjenda, sem snýr að því að kanna hvort innflytjendur hafi jöfn tækifæri til atvinnu innan stjórnsýslunnar eða hinu opinbera. „Það er ekki að ástæðulausu að við töldum nauðsynlegt að fara út í þessa rannsókn. Við töldum nauðsynlegt að finna svör hvort það væru hindranir fyrir innflytjendur, hugsanlega lagalegar hindranir og á sama tíma samkvæmt stefnu hins opinbera. Við vonumst til að geta svarað þessum spurningum og þá koma með tillögur að úrbótum.“

Aðspurð um umræðuefni kvöldsins segir Claudie það verða að koma í ljós, en viðmælendur eru fimm konur af erlendum uppruna með ólíkan bakgrunn og starfsvettvang. Segir hún það mikið fagnaðarefni að slíkur viðburður sé haldinn, ekki síst að tvær ungar konur – önnur íslensk en hin af erlendu bergi brotin hafi fundið tilhneigingu til þess að skapa þessa umræðu, „Það eitt og sér er mikið fagnaðarefni og ég er vongóð fyrir framtíðinni að unga fólki og næsta kynslóð mun halda áfram með mikilvæga barráttunni um að tryggja jafnræði allra kvenna óháð uppruna,. Ég er mjög stolt og ánægð að þær skulu hafa boðið mér að taka þátt.“