„Nær öllu Sjálfstæðisfólki líst vel á ríkisstjórnina“.

Þannig var fyrirsögn forsíðufréttar Fréttablaðsins 15. desember síðastliðinn. Fyrir nokkrum árum hefði fyrirsögnin án efa verið: „Nær öllum Sjálfstæðismönnum líst vel á ríkisstjórnina“.

Hræringarnar miða að þeirri hugsun að jafna rétt manna á millum, fólks á millum, auka kynhlutleysi í íslenskri tungu. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir ýmsar sögulegar ástæður fyrir því að íslenskan sé karllægt tungumál.

„Sem dæmi segjum við: Allir velkomnir en ekki öll velkomin. Þetta má meðal annars rekja til indóevrópska tungumálsins þar sem ekki var til kvenkyn. Það var til eitthvað sem við getum kallað samkyn, forvera karlkynsins. Síðan þróuðust kvenkynsmyndir,“ segir Eiríkur.

Ýmis starfsheiti í íslenskunni enda á -maður. Flugmaður – sjómaður. Það tengist að sögn Eiríks þeirri staðreynd að áður fyrr gegndu karlar fyrst og fremst viðkomandi störfum. Með öðrum orðum eru bæði málsögulegar og félagslegar aðstæður fyrir því að íslenskan er karllægt tungumál.

Í kringum 1970 lögðu rauðsokkur hér á landi áherslu á að konur væru líka menn. Seinna, upp úr 1990, fóru sumar konur að leggja áherslu á sérstöðu kvenna. Þær fóru fram á jafnstöðu á móts við karla, vildu ekki ganga inn í karlaheiminn. Þá hefur mikil umræða orðið um kynsegin fólk og réttindi þess hóps.

„Ég sé enga sérstaka hættu á að menningararfur tungumálsins okkar glatist þótt kröfur komi fram um aukið kynhlutleysi,“ segir Eiríkur.

Snorri skrifaði um landsfólk

Hann bendir á að sumir hafi hneykslast á orðum sem skotið hafi upp kollinum eins og „björgunarfólk“ og „hestafólk“. „En þetta er ekki nýtt,“ segir hann. „Í Heimskringlu talar Snorri Sturluson oftar um landsfólk en landsmenn. Ég sé ekki að það verði nein málspjöll þótt „maður“ falli út á sumum stöðum í málnotkun og „fólk“ sé notað í staðinn.“

Enda tala fyrirsagnir fjölmiðlanna sínu máli. Þjóðin breytist smám saman úr mönnum í fólk.

Enginn verði út undan

Sóley Tómasdóttir, kynja- og fjölbreytileikafræðingur, telur að eftir föngum eigi Íslendingar að reyna að temja sér að tala um fólk fremur en menn. Krafan um breytingar á íslenskri tungu snúist ekki endilega um að tungan verði kynhlutlaus, ekki fremur en að femínismi snúist um að við eigum öll að verða eins. Krafan byggi fremur á að við tölum til þess hóps sem um ræðir hverju sinni.

Þannig hafi nýyrðið inngilding, þýðing á inclusion, rutt sér til rúms.

Sóley Tómasdóttir
mynd/aðsend

„Við viljum vera „inklúsíf“ í um­ræðunni. Þá verðum við að gera ráð fyrir að fólki finnist að við séum að tala til þess,“ segir Sóley.

Hún rifjar upp að þegar hún tók þátt í stjórnmálastarfi hafi endalaust verið talað til hennar sem karls. „Jæja, strákar, hvað segiði? Eru allir með?“ Endalaust hafi verið talað um hópinn sem hún var í sem karlahóp. Það hafi ýtt undir þá hugmynd að hún teldist ekki alvöru stjórnmálamanneskja.

„Tungumálið er hluti af öllu hinu sem segir fólki hvort það tilheyri fólki eða ekki í samfélaginu.“

Sóley segir að við getum rætt hvort tungumálið eigi að vera heilagt og óskert en íslensk tunga þróist af því að samfélagið þróist.

„Við vitum miklu meira en áður um hvað veldur vanlíðan og jaðarsetningu. Eitt af því er karllægt tungumál. Og af því við vitum þetta, þá skiptir máli að við leggjum okkur fram um að laga það.“

Varðandi „menn“ og „fólk“ segir Sóley að ef manni sé skipt út fyrir fólk virðist sem útkoman verði misþjál. „Íþróttafólk“ þyki núorðið gott og gilt orð en önnur orð eins og þingfólk eða lögfólk eigi lengra í land. Skýringin gæti verið að sum þessara orða eigi sér karlsögulegri rætur en önnur. Eftir því sem konur verði meira áberandi í íþróttum sé auðveldara að tala um íþróttafólk. Erfiðara sé enn að tala um „lögfólk“, sennilega vegna þess að ímynd stéttarinnar sé enn ansi karllæg í hugum fólks.

„Við getum allt, þetta er ekki eins erfitt og flókið og andstæðingar framfara vilja meina,“ segir Sóley. „Það er ótrúlega margt sem við höfum breytt í íslenskri tungu í tímans rás, helsta fyrirstaðan er íhaldsöfl, fólk sem þráast við og segir endalaust að konur séu líka menn. Ef við þyrftum ekki að eyða orkunni í að svara því endalaust gæfist meiri tími til jákvæðra umbreytinga.“

Ráðherrann er snjöll

Ólíkar skoðanir eru meðal íslenskufólks og máláhugamanna á hvort málfræðin eigi að taka mið af fornri tíð eða samtímanum. Eiríkur segir að í mæltu og skrifuðu máli sé nú meira hugað að merkingarlegu samræmi á kostnað hins málfræðilega. Það finnist honum í góðu lagi.

„En það skiptir máli hvernig setningagerðin er. Það er hægt – og eðlilegt að mínu mati – að segja „forsætisráðherrann er mjög snjöll“ en ekki „Katrín er snjöll forsætisráðherra“.“

Auk karllægninnar eru dæmi um meiðandi orð sem nánast hefur kerfisbundið verið útrýmt, ekki síst í fjölmiðlum. „Kynvilla“ er eitt dæmi. Fyrir nokkrum árum varð umræða um hvort höfundi Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins væri stætt á að tala um „múlatta“.

„Svona hræringar eru eðlilegar þegar alls kyns hópar sem áður voru undirokaðir eða faldir stíga fram og krefjast réttinda til jafns við aðra.“

Tungumál hvers tíma lýsi leynt eða ljóst einhvers konar innri valdakerfum og viðhorfum.

„Við sitjum uppi með gamlan orðaforða sem er í sjálfu sér gott, því hann viðheldur sögulegu samhengi málsins sem flestir telja æskilegt,“ segir Eiríkur.

Íslenskan ekki í einkaeigu

„En það sem skiptir líka máli er að tungumálið verður að þjóna málnotendum á hverjum tíma. Ef málnotendum finnst að tungumálið geri ekki ráð fyrir þeim, jaðarsetji eða útiloki hóp þeirra og bjóði ekki upp á að tala um þá nema með óviðeigandi orðum, þá er það ekki gott. Það gengur ekki ef við erum svo upptekin af því að vernda tungumálið sem menningararf að við gleymum að tungumálið þarf að þjóna málnotendum.“

Málnotendur þurfi að átta sig á að við eigum íslenskuna saman.

„Enginn á einkarétt á íslenskunni, hún þarf að þjóna okkur öllum.“