„Við verðum trúlega um 500 gegn 20 þúsund heimamönnum. Það verður við ramman reip að draga og mögulega þurfum við að öskra enn hærra og enn meira til að hvetja strákana okkar áfram,“ segir Ása Birna Ísfjörð sem er ein af nokkur hundruð Íslendingum sem sitja á pöllunum í Búdapest að öskra íslenska liðið áfram á EM í handbolta.

Eðlilega var rödd hennar örlítið hás eftir öskrin í stúkunni gegn Hollandi en hún og Gunnhildur Stefánsdóttir voru engu að síður komnar niður í morgunmat þegar Fréttablaðið sló á þráðinn. Voru rétt svo að jafna sig. „Ég var eiginlega lögst í gólfið undir lokin, það var svo mikil spenna,“ segir Ása og hlær.

Íslenska liðið leikur í dag sinn síðasta leik í riðlinum en hann er enn galopinn. Okkar menn eru efstir með fjögur stig en heimamenn og Hollendingar eru með tvö stig.

Íslenska liðinu nægir jafntefli til að vinna riðilinn og fara í milliriðil en sigur er auðvitað besta niðurstaðan. Þá fer Ísland í milliriðil með tvö stig.

Handbolti er ekki einföld íþrótt því ef strákarnir okkar tapa með tveimur mörkum eða fleirum verður íslenska þjóðin að treysta á að stigalausir Portúgalar taki stig af Hollandi. Annars er liðið úr leik.

Ása og Gunnhildur segja stemninguna meðal Íslendinga í Búdapest vera magnaða. Stuðningsmannasveitin Sérsveitin haldi uppi stuðinu fyrir og eftir leiki á Champs-barnum þar sem íslensk lög eru kyrjuð með hjálp söngvatns og víns. „Þessi Hollandsleikur var svakalegur að vera á. Það voru allir vel gíraðir fyrir hann en þessi spenna var mér nánast um megn,“ segir Gunnhildur sem fór á viðureign Ungverja og Portúgala og upplifði stuðið í MVM Dome þar sem 20 þúsund Ungverjar hvetja sína menn áfram. „Eftir leikinn voru alveg opnaðar nokkrar kampavínsflöskur,“ segir Ása.

Til að halda röddinni góðri fyrir átökin í dag ætluðu þær stöllur að slaka aðeins á, borða vel og skella sér svo í vínsmökkunarferð. „Við þurfum að laga röddina í vínsmökkunarferðinni því sennilega töpum við alveg röddinni gegn þessum fjölda,“ segir Ása.

Strákarnir okkar hafa minnst á stuðninginn og segir Gunnhildur að Ýmir Örn Gíslason hafi gefið sér aukakraft til að hvetja þegar staðan var orðin erfið gegn Hollandi. „Þegar Ýmir fór að hvetja okkur áfram og þakka fyrir stuðninginn. Það gaf okkur rosalegt kikk. Það var eiginlega hápunkturinn í leiknum. Það var alveg frábært.

Ýmir er æðislegur og frábært að sjá hann og alla hina koma til okkar og þakka fyrir stuðninginn,“ segja þær nánast í kór.

GettyImages-1365012177.jpg