Björn Þorláksson
bth@frettabladid.is
Þriðjudagur 12. júlí 2022
05.00 GMT

Skiptar skoðanir eru meðal landsmanna um hvort virkja skuli vind í miklum mæli til framleiðslu á grænni raforku.

Meðal helstu ógna eru sjónræn mengun af mannvirkjum, mikið rask, möguleg ísing, uppblástur og dauði fugla sem lenda í spöðum á vindmyllum.

Á tímum hnattrænnar hlýnunar, þar sem krafa er um umhverfisvæna orku og mótvægisaðgerðir gegn gróðurhúsaáhrifum, þykir vindurinn hins vegar góður kostur. Samorka bendir á að ekki sé um óafturkræf spjöll að ræða, því hægt sé að taka niður vindmyllur og gera landsvæði eins og þau voru, að notkun lokinni.

Rokrassar um allt land

Víst er að nóg er til af vindinum hér á landi. Reyndar eru fá lönd heppilegri en Ísland í þeim efnum samkvæmt úttekt Veðurstofunnar, enda hafa Íslendingar alist upp við rokrassa víða um land. Láglendi þykir almennt henta betur fyrir beislun vindorku en hálendi.

Hæð mannvirkjanna, þeirra sem framleiða mesta orku, er aftur á móti gríðarleg, spaðar vindmyllu geta farið í 200 metra sem er um þreföld hæð Hallgrímskirkjuturns. Aukin sátt gæti orðið um beislun vindorku ef vindmyllugarðar yrðu reistir hér í sjó, skammt frá ströndum landsins. Mætti horfa til Danmerkur eða Bretlands í þeim efnum. Hitt er áskorun hvernig myndi ganga að láta núverandi raforkukerfi og vindorkuna tala saman eftir árstíðum, en vindorka er breytileg eftir tímabilum og meiri á vetrum en sumrum.

Sjálfsögð viðbót

Finnur Beck, forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku, segir Samorku ekki taka afstöðu til einstakra vindorkuverkefna, en almennt sé vindorkunýting sjálfsögð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag. Vindorkunýting geti gegnt lykilhlutverki í að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku.

„Á heimsvísu lækkaði veginn meðalkostnaður á framleidda megavattsstund með vindorku á landi um 56 prósent milli áranna 2010 og 2020. Við bætist að aðstæður á Íslandi virðast samkvæmt grunnrannsóknum sérstaklega hagfelldar og skila háu nýtingarhlutfalli. Ef markmiðið er að framleiða áfram raforku með sem hagkvæmustum hætti fyrir íslenskan almenning og fyrirtæki er ekki hægt að horfa fram hjá vindorkunýtingu,“ segir hann.

Finnur Beck, hjá Samorku
Mynd/aðsend

Finnur segir að víða um land hafi orkufyrirtæki átt samstarf við sveitarfélög og landeigendur um þróun verkefna og lagt mikinn kostnað í þróun þeirra og metnaðarfullar umhverfisrannsóknir til undirbúnings verkefnunum. „Gríðarleg tækifæri eru þegar til staðar,“ segir Finnur.

Hann bendir á að samkvæmt nýlegri skýrslu þyki leyfisveitingar tefja framkvæmdir og tækifæri til atvinnuuppbyggingar. „Það er mikilvægt að skerpa á og einfalda regluverk líkt og verið er að gera í nágrannalöndum okkar í Evrópu. Reglurnar þurfa að taka mið af sérstöðu vindorkunýtingar, hún er nær alfarið afturkræf og hægt að þróa og byggja hana hratt til að mæta fyrirsjáanlegri knýjandi orkuþörf.“

Tímamótasamþykkt

Dalabyggð hefur stigið nýtt skref í hópi þeirra sveitarfélaga sem vilja skoða vindorku sem framtíðarlausn í orkumálum. Skipulags­stofnun hefur samþykkt aðal­skipu­lags­breytingu sveitar­fé­lagsins vegna tveggja vindorku­vera í sveitarfélaginu. Er það í fyrsta skipti sem breyting á aðalskipulagi er sam­þykkt undir vindorku­ver fyrir almennan markað.

„Það gerist ekkert í þessum efnum fyrr en Alþingi hefur komið sér saman um rammaáætlun,“ segir Eyjólfur Bjarnason, oddviti Dalabyggðar.

Eyjólfur Bjarnason, oddviti Dalabyggðar

Um neikvæðar hliðar beislunar vindorku í miklum mæli nefnir Eyjólfur víðtæka sjónmengun, gríðarlega efnisflutninga og spurningar hvar skipa skuli upp íhlutum. Kannski þurfi jafnvel að byggja nýja höfn ef áformin verða að veruleika. Kostur sé hins vegar að þekktir vindstrengir liggi um héraðið og í nálægð við flutningskerfi Landsnets.

„Hér er ríkjandi norðanátt, við tölum oft um Húnaflóarokið, það sem kemur úr Hrútafirðinum og hér yfir,“ segir Eyjólfur.

Fyrir tveimur árum var gerð skoðanakönnun meðal íbúa í Dalabyggð. Niðurstaðan varð að meirihluti fólks vildi að vindorka yrði skoðuð vel. Stórar hugmyndir hafa verið uppi um framleiðslu. Hefur verið horft til þess að hvort ver í Dalabyggð gæti skilað 150 til 200 megavöttum. Kröfluvirkjun skilar til samanburðar 60 megavöttum, Kárahnjúkavirkjun skilar 690 megavöttum. Vindurinn í Dalabyggð gæti því skilað yfir 50 prósentum af orkuframleiðslu umdeildustu virkjunar landsins þegar best lætur en orkan yrði ekki til á ársgrunni.

Betra að slökkva á álveri

Auður Önnu Magnúsdóttir, formaður Landverndar, segir að ákvarðanataka fyrir vindorku í miklum mæli hér á landi verði að byggjast á faglegum forsendum.

„Þegar við vitum að 80 prósent rafmagnsframleiðslu hér fara til stóriðju og við erum fyrir stærst í orkuframleiðslu, sjáum við ekki þörf á beislun vindorku í miklum mæli sem stendur,“ segir Auður.

„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hversu gríðarleg mannvirki þetta eru,“ bætir hún við og leggur áherslu á að eyðilegging náttúrunnar yrði mjög mikil.

Auður Önnu Magnúsdóttir, formaður Landverndar.
Mynd/aðsend

Vitað er um áhuga fjárfesta á að beisla vind til að selja um sæstreng til Evrópu. Landvernd telur nær að taka orku frá einu eða tveimur álverum hér á landi. Fyrir liggi orkuskipti og að þeim verði að huga. „Við ættum frekar að vera meðal fyrstu þjóða heims til að ná orkuskiptum, við myndum gera mest gagn með því að sýna umheiminum hvernig kolefnislaust samfélag virkar,“ segir Auður.

„Við sjáum að framlegð á sjálfbærri orku hefur aukist um 10-15 prósent á ári en losun gróðurhúsalofttegunda hefur ekkert dregist saman. Við þurfum að spyrja okkur hvað sé að gerast. Það að framleiða sjálfbæra orku virðist ekki draga úr gróðurhúsalofttegundum,“ segir Auður, formaður Landverndar.

Athugasemdir