Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða karlmanni sem sat í rúma sjö mánuði í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að stórfelldu fíkniefnamáli nær 11 milljónir í miskabætur.

Landsréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um fjárkröfu mannsins vegna miskabóta og tapaðra launatekna í tengslum við gæsluvarðhaldið og hækkar bæturnar úr nær fimm milljónum í ellefu.

Maðurinn sem um ræðir var handtekinn árið 2017 vegna gruns um aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi í félagi við þrjá aðra. Í kjölfar handtökunnar sat hann í gæsluvarðhaldi í 215 daga, þar af 28 daga í einangrun, auk þess sem hann sætti ýmsum rannsóknaraðgerðum.

Maðurinn lagði sig fram frá upphafi að aðstoða við rannsókn málsins með því að vera samvinnuþýður og var hann að lokum sýknaður af öllum sakargiftum og höfðaði hann þá mál gegn ríkinu.

Upplifði kvíða og þunglyndi

„Maðurinn hefði glímt við áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða sem rekja mætti til gæsluvarðhaldsins,“ segir meðal annars í dómnum sem var birtur í dag. Í dómi héraðsdóms kemur fram að háttsemi lögreglunnar gagnvart manninum hafi valdið honum mikilli vanlíðan. Taldi hann rannsóknaraðgerðir lögreglu óhóflega harkalegar og höfðu þær áhrif á bæði hans feril og persónulega líf.

„Þá hafi aðgerðir lögreglu haft veruleg áhrif á nýstofnað félag hans sem sérhæft hafi verið í innflutningi [...] og leitt til þess að hann hafi neyðst til að selja það. Handtaka hans, einangrun og gæsluvarðhald í 215 daga hafi gert að verkum að hann hafi orðið tekjulaus og hann og unnusta hans misst leiguhúsnæði sem þau höfðu haft.“

Fíkniefni fundust í bíl mannsins í Norrænu.
Fréttablaðið

Fundu amfetamínbasa í bílnum

Málið má rekja til rannsóknar lögreglu frá árinu 2017 þegar tollverðir fundu amfetamínbasa falin í bíl um borð í Norrænu. Manninum var gefið að sök að hafa undirbúið komu þriggja manna til Íslands, leiðbeint þeim við dvöl þeirra hér á landi og útvegað þeim gistingu og bílskúr þar sem mennirnir fjarlægðu efnin úr bílnum.

Lögreglan kom fyrir hlustunar- og eftirfararbúnaði í bílnum við komu til Seyðisfjarðar og fylgdi bílnum eftir til Reykjavíkur. Mennirnir fjórir voru svo handteknir við skúrinn,. þremenningarnir voru dæmdir sekir en maðurinn í þessu máli var sýknaður þar sem ekki var hægt að sýna fram á að hann hafi vitað af efnunum í bílnum.