Hæstiréttur dæmdi í dag að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að banna innflutning á fersku kjöti frá Hollandi.

Þá dæmdi Hæstiréttur íslenska ríkið til þess að greiða fyrirtækinu Ferskar kjötvörur ehf. allan málskostnað. Fyrirtækið fór í mál við ríkið og krafðist skaðabóta eftir að því var meinað að flytja hingað til lands ferskt nautakjöt frá Hollandi árið 2014.   

Síðasta „tylliástæðan“ úr sögunni

Dómur héraðsdóms um málið féll fyrir tæpum tveimur árum, en fyrir ári féll dómur EFTA-dómstólsins þar sem niðurstaðan var að bæði bannið við innflutningi á fersku, ófrosnu kjöti og bann við innflutningi á ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk frá ríkjum EES gengi gegn samningum.

Íslenska ríkið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdósm í dag. Fyrirtækið Ferskar kjötvörur er aðili að Félagi atvinnurekenda, sem fagnar niðurstöðu dómsins á heimasíðu sinni.

„Það hefur legið fyrir árum saman að íslensk stjórnvöld hefðu vísvitandi brotið EES-samninginn og að þetta mál væri fyrirfram tapað, eins og Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra viðurkenndi raunar á fundi Félags atvinnurekenda fyrr á árinu,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA. „Síðasta tylliástæða stjórnvalda til að bíða með að fella bannið úr gildi er nú úr sögunni. Félag atvinnurekenda hvetur ráðherrann eindregið til að grípa þegar í stað til aðgerða til að aflétta þessu ólöglega og óþarfa banni.“

Segja áhersluna vera á matvælaöryggi

Greint er frá úrskurðinum á vef Stjórnarráðsins þar sem fram kemur að frá uppkvaðningu EFTA-dómstólsins hafi það verið forgangsmál stjórnvalda að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningum. 

„Við þá vinnu hefur verið lögð áhersla á að tryggja öryggi matvæla og vernd búfjárstofna. Í júlí sl. sendi Ísland umsókn til Eftirlitsstofnunar EFTA um heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar. Slíkar tryggingar, sem önnur Norðurlönd hafa þegar fengið, munu gera stjórnvöldum kleift að krefjast ákveðinna vottorða um að tilteknar afurðir séu lausar við salmonellu. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum aðgerðum, m.a. varðandi kampýlóbakter,“ segir á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Ísland samþykkti árið 2007 að taka matvælalöggjöf Evrópusambandsins upp í EES-samninginn og tóku reglurnar gildi gagnvart Íslandi í nóvember 2011. Þessar reglur gilda þegar kemur að útflutningi íslenskra landbúnaðar- og sjávarafurða til ríkja á EES-svæðinu.