„Íslenska módelið er algert samvinnumódel og það mæðir mest á þeim sem vinna á vettvangi með börnum. Þetta snýst um gott framboð frístunda, gott samstarf við foreldra og góða líðan í skóla,“ segir Jón Sigfússon, framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar sem heldur utan um mælingar á þessu sviði og miðlar til annarra, bæði innan lands og utan. Segir hann nauðsynlegt að bregðast hratt við í miðlun upplýsinga svo hægt sé að bregðast við áskorunum og styðjast við nýjustu mælingar. Aðstæður á hverjum stað skipta líka máli.


Árið 1998 stóð Ísland mjög illa að vígi og ungmenni hér notuðu hvað mest af áfengi, tóbaki og kannabis í gervallri Evrópu. 42 prósent 10. bekkinga drukku að minnsta kosti einu sinni mánuði, 23 prósent reyktu daglega og 17 prósent höfðu reykt kannabis.

„Á þessum tíma var markvisst farið í að bregðast við þessu og breyta áherslum í forvarnarstarfi,“ segir Jón. Nefnir hann að bæði hafi úrval tómstunda aukist og að gæðin séu á heimsklassa. „Ef þú sendir til dæmis fimm ára barn á fótboltaæfingu þá tekur við því þjálfari með meistaragráðu í íþróttafræðum. Úti í heimi er þetta starf byggt á sjálfboðavinnu.“

Jón.jpg

Jón Sigfússon


Tölurnar hríðféllu á árunum eftir 1998 og í dag eru allir flokkarnir vel innan við 10 prósent. „Um aldamótin höfðu 18 prósent framhaldsskólanema aldrei orðið ölvuð, í dag er hlutfallið 46 prósent,“ segir Jón.

Árið 2006 voru íslenskar mælingar kynntar á ráðstefnu í Ósló og hafði neyslan þá helmingast. Önnur Evrópulönd voru þá farin að taka eftir árangrinum og var starfið kynnt í fjölmörgum borgum í kjölfarið. Stór stund var þegar frétt birtist hjá breska miðlinum Mosaic árið 2017 með fyrirsögninni „Iceland knows how to stop teen substance use but the rest of the world isn’t listening“. „Þetta fór um allan heim á nokkrum vikum og eftir það hefur síminn hringt stanslaust,“ segir Jón. Í kölfarið var forvarnastarfið kynnt um allan heim undir heitinu Planet Youth.

Í dag er íslenska módelið meðal annars notað í sveitarfélögum í Hollandi, Írlandi, Spáni, Chile, Litháen, Ástralíu og Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Jón er nýkominn frá Ontario-fylki í Kanada þar sem verkefnið er að fara af stað. Sums staðar, svo sem í Alaska, hefur verkefnið verið notað að hluta.

Vandamál barna og unglinga hafa breyst á undanförnum 20 árum og sífellt koma upp nýjar áskoranir. Jón segir nauðsynlegt að fylgjast vel með til að hægt sé að bregðast við. Nefnir hann aukna notkun rafretta og aukin þunglyndis- og kvíðaeinkenni, sérstaklega hjá stúlkum, og áskoranir tengdar samfélagsmiðlum.