Hjónin Theresa og Jake Bentz í Minnesota eru nú að koma sér upp vinnsluvél fyrir ull af íslensku sauðkindinni. Þau eru með tvo hrúta, hátt í 40 kindur og rúmlega 30 lömb en þurfa að senda ullina yfir í næsta fylki þar sem engin ullarvinnsla í Minnesota vill taka við hinni tvískiptu íslensku ull.

„Það er töluvert af íslensku sauðfé hér í Bandaríkjunum. Þær voru fluttar inn á áttunda áratugnum frá Kanada og náðu miklum vinsældum hjá smábændum fyrir um sjö árum,“ segir Theresa sem rekur bú við bæinn Northfield, sunnan við Minneapolis, en er iðjuþjálfi að aðalstarfi. „Íslenskt sauðfé finnst í öllum fylkjum nema þeim syðstu því að loftslagið þar hentar því ekki.“

Theresa og Jake völdu íslenskt fé vegna eiginleika ullarinnar, gæða kjötsins og erfðafræðilegrar aðlögunar að köldu loftslagi. Þau hafa engin önnur tengsl við Ísland og eru ekki afkomendur þeirra Íslendinga sem fluttu vestur um haf á 19. öld.

bentz2.jpg

Bandarískar ullarvinnslur vilja síður taka við togi og þel en Theresu finnst gott að vinna með efnið.

Stórræktendur í Bandaríkjun­um nota yfirleitt kyn eins og hið franska Rambouillet eða Merino frá Marokkó. Íslenska kynið er talið eitt af þeim frumstæðari og ekki ræktað á stórum skala. „Ég spinn og prjóna og hef mjög gaman af því að vinna með þræðina, þessa tvískiptingu í tog og þel. Ullin er gróf, sterk, heldur á manni hlýju og endist lengi,“ segir Theresa. „Svo bragðast kjötið svo vel.“

Hjónin ákváðu að koma sér upp eigin ullarvinnsluvél þar sem allar vinnslurnar í Minnesota fóru að hafna frumstæðri ull og taka í staðinn við fínni. Eins og af hinum suðuramerísku alpakkadýrum sem eru náskyld lamadýrum. Hafa þau því þurft að senda ullina austur til Wisconsin með auknum tilkostnaði og allt að árs bið.

„Ég fann litla vél hérna í Minnes­ota og sæki hana á laugardaginn. Í kjölfarið ætlum við að bjóða öðrum bændum upp á að vinna íslensku ullina sína hjá okkur,“ segir Ther­esa. „Ullarmarkaðurinn hér er lítill en í faraldrinum hefur fólk í auknum mæli byrjað að spinna og prjóna og huga betur að sjálfu sér.“

bentz3.jpg