Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofurnar í Peking og París, í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, unnu í samstilltu átaki að heimflutningi íslenskrar fjölskyldu frá Wuhan í Kína í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Fjölskyldan lenti síðdegis í gær á Reykjavíkurflugvelli og gekkst í kjölfarið undir læknisskoðun. Fjölskyldunni hefur verið gert að halda sig heima í sóttkví í tvær vikur í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis. Þau hafa þó leyfi til að fara í göngutúr. Þau sýndu engin einkenni veirunnar.

Flestar fjölskyldu sem voru brottfluttar frá Wuhan í átaki Evrópusambandsins voru frá Frakklandi. Flugfreyjur klæddust hlífðarbúnaði í fluginu.

Fréttablaðið greindi frá því í fyrradag að íslensk fjölskylda, sem hafði dvalið Kína, hafi óskað eftir því að komast heim og Evrópusambandið myndi skipuleggja flugið í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Áður var ekki tekið fram hvar í Kína fjölskyldan hafi verið stödd, en lokað hefur verið samgöngur til og frá Wuhan. Nú hefur verið staðfest að fjölskyldan hafi verið í Wuhan, þar sem COVID-19 kórónaveiran átti upptök sín.

Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við RÚV í gær að enginn fái að fara frá Kína nema sá hinn sami sé heilbrigður. Hann segir að fjölskyldan hafi ekki umgengist smitað fólk meðan þau voru í Wuhan.