Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og sendiráð Íslands í Stokkhólmi hafa undanfarna daga verið fjölskyldu manns sem saknað er í Svíþjóð innan handar. Maðurinn féll af sæþotu undan strönd sænsku borgarinnar Borgholm á Öland í Svíþjóð seinni part á laugardag og ekkert hefur spurst til hans síðan.
Í svari til Fréttablaðsins um aðkomu borgaraþjónustunnar að leitinni kemur fram að þau hafi aflað upplýsinga frá sænskum stjórnvöldum um gang leitarinnar sem og um almennt ferli sem viðhaft er í slíkum aðstæðum í Svíþjóð.
Þá hafa borgaraþjónustan og sendiráðið haft milligöngu um að koma sjónarmiðum og óskum fjölskyldunnar á framfæri við rétta aðila og kanna þá möguleika til frekari leitar sem til staðar eru.
Enn við leit
Í gær var á vef Fréttablaðsins rætt við frænda mannsins, Víði Víðisson, sem staddur er í Svíþjóð við leit að manninum en fjölskyldan hefur hafið söfnun til að geta haldið leitinni áfram. Hann furðaði sig á lítilli aðkomu sænskra yfirvalda að leitinni.
Víðir er enn við leit í dag og fór í morgun í fimm klukkustunda þyrluflug yfir strandlengjunni. Í samtali við Fréttablaðið segir Víðir að leitin hafi ekki enn skilað árangri en þau halda áfram í dag. Hann á von á fleira fólki í kvöld auk þess sem þau fá þá fleiri dróna til að nota við leitina.
„Við náðum í fluginu að skoða mjög stórt svæði og mikið af eyjum úti á miðjum sjó.“