Evrópusambandið hefur ákveðið að leyfa 18 ára ungmennum frá EES-ríkjum og umsóknarríkjum ESB að taka þátt í Interrail-lottóinu DiscoverEU. Hingað til hafa einungis ungmenni í ESB-ríkjum getað sótt um.

Þau sem vinna fá 30 daga ferðakort, sem gildir aðallega í lestir á meginlandi Evrópu. Einnig fá þau afsláttarkort sem hægt er að nota við matarinnkaup. Kortin verða að minnsta kosti 10 þúsund talsins og gætu orðið allt að 70 þúsund í ár. Við umsókn þurfa ungmennin að svara sex spurningum um evrópska sögu og menningu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lýst árinu 2022 sem ári æskunnar og áhersla verður á að koma ferðaþjónustunni aftur í gang eftir heimsfaraldurinn. Auk Íslendinga geta ungmenni frá Noregi, Liechtenstein, Tyrklandi, Serbíu og Norður-Makedóníu sótt um. Þau sem vinna fá einnig aðgang að samskiptakerfi DiscoverEU og geta haft samband við önnur ungmenni á sams konar ferðalögum.

Mariya Gabriel, ráðherra nýsköpunar, menningar, menntunar og æsku hjá Evrópusambandinu, kynnti útvíkkun verkefnisins í gær og hvatti ungmenni til að sækja um.

Hugmyndin að DiscoverEU spratt árið 2014 frá tveimur ungum Þjóðverjum, Vincent-Immanuel Herr og Martin Speer, en þeir stungu upp á að Evrópusambandið myndi gefa öllum 18 ára ungmennum í álfunni Interrail-kort. Þetta var talinn of stór biti fjárhagslega og núverandi verkefni var því málamiðlun.