Aðgerðin er ekki skilgreind sem lífsnauðsynleg, sem er bara rangt. Frá sjónarhorni geðheilsu er þetta eitthvað sem verður að gerast,“ segir Bríet Blær Jóhannsdóttir, 27 ára gömul trans kona sem beðið hefur eftir kynleiðréttingaraðgerð í 65 vikur. Hún segist ekki sjá fyrir endann á biðinni.

Bríet Blær Jóhannsdóttir segir að kynleiðréttingarferlið sé rosalega langt, og hafi líka verið það fyrir heimsfaraldurinn. Hún segir að erfitt sé að byrja ferlið. „Þetta er svo yfirgnæfandi og óyfirstíganlega mikið. Ferlið byrjar á sex mánuðum af læknatímum þar sem er staðfest að viðkomandi sé líkamlega andlega og samfélagslega á nógu góðum stað til að byrja á þessu yfir höfuð,“ segir hún.

Hefur verið í ferli síðan 2018

„Þá tekur við sex mánaða tilgangslaus bið til að byrja á hormónum. Ári eftir það fer maður á biðlista eftir aðgerð, bið sem tekur ár. Þannig eru þrjú heil ár sem þetta tekur, fyrir Covid,“ útskýrir Bríet.

Bríet hóf leiðréttingarferlið árið 2018 og fékk pláss á biðlista eftir aðgerð tveimur árum seinna.

„Þetta hittir þannig á hjá mér að ég fer til læknis og bið um að fá að fara á þennan biðlista 2020. Þá er mér tjáð að ekki sé búið að framkvæma neinar aðgerðir á þessu ári, 2020. Að sé verið að vinna í því að framkvæma fjórar aðgerðir í desember, en ég fæ þessar upplýsingar í nóvember.“

Fréttir af biðlistanum þungt áfall

Hún segist ganga út frá því að síðan þá hafi biðtíminn tvöfaldast. „En ég gekk út frá því að verið væri að ýta á eftir þessu. En ég kemst síðan að því í gærkvöldi að þessar fjórar aðgerðir sem framkvæmdar voru í desember 2020 hafi verið einu aðgerðirnar sem framkvæmdar hafa verið á tímabilinu.“

Bríet segir fréttirnar af kyrrstöðu biðlistans hafa verið þungt áfall, en biðin sé gríðarlega erfið.

„Að mínu mati er transfólk rosalega viðkvæmt, þetta er rosalega viðkvæmur samfélagshópur, út frá því hvað við höfum mátt þola í gegnum ævina og hvað þetta ferli er erfitt,“ segir hún. „En að fá síðan þessa blautu tusku í andlitið, að eftir ár af bið sé ennþá tveggja ára bið – það eina sem mér dettur í hug er gut punch,“ útskýrir Bríet.

Er búin að bíða í sextíu og fimm vikur

Hún segist hafa fengið senda samantekt á lengd biðlista eftir aðgerðum á tímabilinu 2017 og 2022. „Þar eru allar hæstu tölurnar sextíu og fjögurra og sextíu og sjö vikna bið. Ég er búin að bíða í sextíu og fimm vikur,“ segir Bríet. „Eftir tvær vikur er ég að fara fram úr hæstu tölum á þessum lista.“ Hún bætir við að það sé trans fólk á listanum sem hafi beðið lengur en hún sjálf.

Bríet segir einnig mikilvægt að minnast á að hún sé ekki að tala fyrir breytingum fyrir sig persónulega, heldur vilji hún að allir á þessum lista komist í aðgerðirnar. „Ég vil fara í aðgerðina þegar kemur að mér. Ég veit hvað þetta er mikilvæg aðgerð og ég gæti ekki hugsað mér að fara fram fyrir eða taka pláss frá annarri manneskju sem er búin að bíða lengur en ég.“

„Get ég lifað í tvö ár í viðbót?“

Bríet segir að aðgerðin sé ekki formlega skilgreind sem lífsnauðsynleg, en það sé rangt. „Frá sjónarhorni geðheilsu er þetta eitthvað sem verður að gerast,“ segir hún. „Ég get bara talað fyrir sjálfa mig þegar kemur að þessu, en þegar ég frétti þetta í gær, þá var ég bara að pæla: Get ég lifað í 2 ár í viðbót? Þetta er rosalega þungt, að þurfa að bíða svona.“

Bríet hefur ekki farið í sund síðan árið 2009. „En ég elska að fara í sund. En ég get ekki hugsað mér að fara í sund eins og ég er í dag. Þetta aftrar mér í samböndum við karlmenn, og þetta aftrar mér í öllu. Ég get ekki einu sinni hugsað mér að fara til sólarlanda,“ segir hún.

Bríet bætir við að núverandi staða auki líkur á áreiti. „Það eru svo margir hlutir sem eru erfiðir fyrir trans fólk að lifa með í dag,“ segir hún. „En aðgerðin er hlutur sem er hægt að gera eitthvað í núna. Það er ekki hægt að breyta í einni svipan hvernig fólk hugsar um trans fólk, en það er hægt að hjálpa með þessu.“