Ís­lensk stjórn­völd gagn­rýna harð­lega hernaðar­að­gerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýr­landi og hafa komið þeirri af­stöðu sinni á fram­færi við tyrk­nesk yfir­völd með form­legum hætti. Frá þessu er greint í til­kynningu sem birt var á heima­síðu utan­ríkis­ráðu­neytisins fyrr í dag.

„Hernaðar­að­gerðirnar sam­ræmast ekki al­þjóða­lögum og er þess krafist að Tyrkir hætti að­gerðunum þegar í stað og fylgi al­þjóða­lögum í hví­vetna. Hernaður sem beinist að al­mennum borgurum og veldur mann­tjóni, eins og fregnir herma, er for­dæmdur,“ segir í til­kynningunni.

Þar segir einnig að ís­lensk stjórn­völd hafi þungar á­hyggjur af því að yfir­standandi hernaðar­að­gerðir Tyrkja magni enn frekar ó­friðar­bálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í bar­áttunni gegn hryðju­verka­sam­tökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra sendi frá sér yfir­lýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti miklum á­hyggjum af hernaðar­að­gerðum Tyrk­lands­stjórnar gegn Kúrdum á sýr­lensku yfir­ráða­svæði og kallaði eftir vopna­hléi á svæðinu. Þá hefur af­staða ríkis­stjórnarinnar til að­gerðanna komið fram á Al­þingi og í fjöl­miðlum undan­farna dag.

Munu fylgjast náið með framvindu mála

For­seti Tyrk­lands lýsti því fyrir fyrr í dag að hann myndi senda sýr­lenska flótta­menn til Evrópu muni Evrópu­sam­bands­löndin kalla inn­rás þeirra her­nám.

Í yfir­lýsingu ís­lenskra stjórn­valda kemur fram að þrátt fyrir að Tyrkir hafi tekið á móti miklum fjölda flótta­manna sé það skýr af­staða þeirra að „að­gerðir sem þessar séu síst til þess fallnar að skapa að­stæður til að flótta­fólk geti snúið aftur til síns heima, enda lík­legt að þær stuðli fremur að á­fram­haldandi á­tökum en varan­legum friði.“

Segir að lokum að ís­lensk stjórn­völd muni fylgjast náið með fram­vindu málsins næstu daga og leggja á­herslu á það á­samt öðrum ríkjum að hernaðar­að­gerðum verði hætt.