Íslensk málnefnd styður eindregið framkomin drög að stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu. Drög að frumvarpi þess efnis eru nú til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda.

„Eins og margoft hefur komið fram í ályktunum Íslenskrar málnefndar er íslenska í viðkvæmri stöðu vegna þess hve málhafar eru fáir og alþjóðasamskipti mikil auk hinnar hröðu samskiptabyltingar á þessari öld,“ segir meðal annars í umsögn nefndarinnar.

Af þeim ástæðum sé stuðningur löggjafans og ríkisvaldsins við tungumálið þeim mun mikilvægari. Umrætt stjórnarskrárákvæði sé mikill stuðningur við allt starf Íslenskrar málnefndar og annarra sem vinna við að tryggja og bæta stöðu íslenskrar tungu.

Tillagan byggir á vinnu formanna þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi og hefur staðið frá upphafi árs 2018. Birting í samráðsgátt felur þó ekki í sér að formennirnir hafi skuldbundið sig til að standa að framlagningu frumvarps í þessari mynd.